Skattaleg samkeppni í Evrópu fer harðnandi

Bloomberg-fréttastofan fjallar í dag um harðnandi samkeppni milli Evrópuþjóða í skattlagningu fyrirtækja. Fram kemur að ýmis stærri ríki álfunnar vinni nú að því að lækka fyrirtækjaskatta til þess að mæta aukinni skattalegri samkeppni í stað þess að agnúast út í minni ríki fyrir að bjóða betur í þessum efnum. Í þessu felast skýr skilaboð til okkar Íslendinga um að við verðum að halda áfram á braut skattalækkana ef við viljum ekki glutra niður hagstæðri samkeppnisstöðu á þessu sviði.

Í frétt Bloomberg kemur að tekjuskattshlutfall á fyrirtæki innan Evrópusambandsins sé nú að meðaltali 26% og fari áfram lækkandi vegna áforma stjórnvalda í mörgum stærstu ríkjum sambandsins. Gordon Brown hefur lýst yfir vilja til að lækka hæsta hlutfallið í Bretlandi úr 28% í 26% og neðri deild þýska þingsins hefur samþykkt tillögu Angelu Merkel kanslara um lækkun úr 39% í 30%. Hinn nýkjörni forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, hefur lofað verulegri lækkun þar í landi og svipuð viðhorf eru uppi á Ítalíu og Spáni.

Írland er enn í sérflokki þegar horft er til skattlagningar fyrirtækja í Vestur-Evrópu en þar er almennt skatthlutfall 12,5%. Írar hafa á síðustu tveimur áratugum stigið stór skref í átt að hagstæðara starfsumhverfi fyrirtækja - ekki síst á sviði skattamála - og hefur það skilað sér í gríðarlegri uppsveiflu, sem stundum er nefnt írska efnahagsundrið. Í hinum nýju aðildarríkjum ESB í Mið- og Austur-Evrópu eru þessir skattar líka víða lágir og hefur það átt ríkan þátt í uppbyggingu atvinnulífsins þar á síðustu árum. Engin merki eru um að þessi ríki hyggist hverfa af þessari braut og nú er komið á daginn að gömlu stórveldin innan Evrópusambandsins ætla að fylgja í kjölfarið, í stað þess að reyna að knýja smærri ríkin til að laga sig að sínum háttum.

Frétt Bloomberg leiðir hugann að stöðu mála hér á landi. Síðustu ríkisstjórnir hafa stigið veruleg skref í þá átt að gera íslenskt skattaumhverfi hagstætt fyrir atvinnulífið. Fyrir fimm árum var tekjuskattshlutfallið lækkað í 18% og haldið hefur verið fast við þá stefnu að halda fjármagnstekjuskatti í 10%. Þetta hafa stjórnarandstæðingar á hverjum tíma oft kallað dekur við fyrirtæki og fjármagn, en árangurinn er ótvíræður. Hagstætt skattalegt umhverfi hefur átt afar mikinn þátt í þeirri uppsveiflu í atvinnulífinu sem við höfum upplifað á síðustu árum og niðurstaðan er sú að lægri skatthlutföll hafa skilað margföldum skatttekjum í ríkissjóð miðað við það sem áður var.

En með þessu er ekki sagt að við getum látið staðar numið í þessum efnum. Skatthlutföllin sem slík segja ekki alla söguna. Þótt skatthlutföll hér á landi séu enn með þeim hagstæðustu geta komið til aðrir þættir sem draga úr forskoti okkar. Víða í nágrannalöndunum eru frádráttarliðir og undanþágur af ýmsu tagi mun fleiri og mikilvægari en hér á landi. Það var meðvituð ákvörðun íslenskra stjórnvalda á sínum tíma að byggja upp einfalt kerfi með lágum hlutföllum og fáum undantekningum. Ef við viljum halda okkur við þá stefnu, en á sama tíma tryggja að við glötum ekki þeirri góðu stöðu sem við höfum haft að þessu leyti, þá liggur fyrir að lækka verður tekjuskattshlutfallið enn frekar. Það er því fagnaðarefni að ný ríkisstjórn Geirs H. Haarde hefur undirstikað vilja sinn í þeim efnum í stjórnarsáttmálanum sem kynntur var í síðustu viku. Ekki liggur enn fyrir hve stór skref verða tekin á þessu kjörtímabili, en spyrja má hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að við förum írsku leiðina.


Kaupmáttur, skattbyrði og skattstjórinn fyrrverandi

Hvernig ætli skattbyrði hefði þróast á Íslandi undanfarin ár ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki beitt sér fyrir verulegri lækkun skatthlutfalla einstaklinga og fyrirtækja og afnámi ýmsa skatta? Ég velti þessu fyrir mér í tilefni af skrifum Indriða H. Þorlákssonar, fyrrum ríkisskattstjóra, sem að undanförnu hefur birt greinar um skattamál og skattbyrði hér á blogginu. Ýmislegt er áhugavert í skrifum Indriða, enda þekkir hann skattkerfið vel, en ég sé hins vegar ekki tilraun af hans hálfu til að svara þessari spurningu. Í mínum huga er þetta atriði þó afar mikilvægt þegar lagt er mat á áhrifin af skattastefnu ríkisstjórna undanfarinna ára.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir að við svona "hvað ef" spurningum er ekki til neitt einhlítt svar. Hins vegar er rökrétt að álykta að þróun þessara mála hefði getað orðið á tvo vegu. Annars vegar má halda því fram að óbreytt skatthlutföll hefðu haft í för með sér enn þyngri skattbyrði en nú er raunin, að því gefnu að tekjur einstaklinga og fyrirtækja hefðu vaxið jafn mikið og skattstofninn stækkað með þeim hætti sem orðið hefur undanfarin ár. Hins vegar hefði atburðarásin líka getað orðið á þá leið að tekjurnar hjá atvinnulífinu og heimilunum hefðu ekki aukist með þessum hætti heldur staðið í stað og þá hefði reiknuð skattbyrði að sjálfsögðu ekki aukist heldur. En það er að minnsta kosti erfitt að sjá fyrir sér, að óbreytt skattastefna hefði undir nokkrum kringumstæðum getað leitt til lægri skattbyrði.

Mér sýnist Indriði gera þá grundvallarskekkju í umfjöllun sinni, að ganga út frá því að skattstofninn sé með einhverjum hætti óbreytanlegur fasti og að skattalagabreytingar geti ekki haft áhrif á það hvort hann stækki eða minnki. Ég er þeirrar skoðunar að reynsla okkar Íslendinga sýni einmitt hið gagnstæða. Skattalagabreytingar undanfarinna ára, veruleg lækkun fyrirtækjaskatta, stöðug lækkun skatthlutfalla einstaklinga, einföld og hagstæð skattlagning fjármagnstekna, lækkun neysluskatta, afnám eignarskatts og sérstaks tekjuskatts og fleiri breytingar, hafa átt verulegan þátt í því að örva efnahagslífið og auka verðmætasköpun í samfélaginu. Allar þessar breytingar hafa - ásamt öðrum aðgerðum ríkisstjórna síðustu ára - orðið til þess að stækka skattstofninn og styrkja þannig grundvöll tekjuöflunar ríkis og sveitarfélaga um leið og hagur skattgreiðenda hefur vænkast. 

Að lokum er svo auðvitað rétt að minna á, að allar mælingar sýna að uppgangurinn í efnahagslífinu hefur skilað sér til landsmanna með stórauknum kaupmætti ráðstöfunartekna. Aukningin var 56% milli áranna 1994 og 2005 samkvæmt rannsókn Hagstofunnar og miðað við nýja þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins verður hún 75% á tímabilinu frá 1994 til 2007. Þegar þessi kaupmáttaraukning er reiknuð út er búið að taka tillit til verðbólgu, kostnaðar vegna íbúðakaupa, lífeyrisiðgjalda, bóta úr opinberum sjóðum og að sjálfsögðu skatta. Reiknuð skattbyrði hefur aukist en kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur bara aukist miklu meira. Þegar upp er staðið hlýtur það að skipta höfuðmáli fyrir hag heimilanna í landinu.


Ráðherraefni Samfylkingarinnar?

Jón Baldvin Hannibalsson sagðist í viðtali í hádegisfréttum Stöðvar 2 í dag vera tilbúinn að taka sæti í ríkisstjórn ef til hans væri leitað. Það er því ljóst að þótt Samfylkingin hafi ekki teflt fram forsætisráðherraefni að þessu sinni þá er kominn fram að minnsta kosti einn frambjóðandi í ráðherraembætti á vegum flokksins. Sá er að vísu ekki frambjóðandi í kosningunum á morgun en það er auðvitað ekki skilyrði fyrir því að geta sest í ráðherrastól. Jón Baldvin bætti því við að sér fyndist að flokkar ættu í auknum mæli að leita til manna utan þings um að taka sæti í ríkisstjórn, en það er hugmynd sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þá forsætisráðherraefni, viðraði fyrir síðustu kosningar við litla hrifningu þáverandi þingmanna flokksins. Nú hljóta auðvitað að vakna spurningar um afstöðu hennar til þessara mála almennt og þá auðvitað sérstaklega til tilboðs Jóns Baldvins.

Annars mælti Jón Baldvin Hannibalsson ekki síður með öðrum kandídat en sjálfum sér í þessu sambandi. Hann lét svo um mælt að Jón Sigurðsson væri mikilvægur maður í ríkisstjórn á vegum Samfylkingarinnar til að tryggja flokknum trúverðugleika í efnahagsmálum. Það er harður dómur um þá þingmenn og frambjóðendur flokksins, sem eitthvað hafa verið að myndast við að tala um efnahagsmál fyrir þessar kosningar. Ekki er hægt að skilja orð þessa fyrrverandi leiðtoga Alþýðuflokksins öðru vísi en svo að þessum eftirmönnum hans hafi mistekist að skapa sér trúverðugleika á þessu sviði. En það eru svo sem ekki nýjar fréttir.


Blekkingarleikur um kosningavíxla

Samfylkingin þreytist ekki á frasanum um 400 milljarða kosningavíxla ríkisstjórnarinnar fyrir þessar kosningar. Talsmenn flokksins hafa hins vegar látið ógert að útskýra hvernig þeir fái út þessa tölu. Það er ekki nema von. Staðreyndin er sú að 95% af þessari fjárhæð er fengin með því að leggja saman öll útgjöld til vegamála, hafnamála, flugmála og annarra samgöngumála til næstu 12 ára samkvæmt samgönguáætlun, sem samgönguráðherra lagði fram á vorþingi, eins og honum ber skylda til samkvæmt lögum. 

Sú spurning hlýtur að vakna þegar hlustað er á hneykslunartóninn hjá Samfylkingunni vegna þessarar fjárhæðar, hvort flokkurinn hafi í hyggju að skera niður framlög til samgöngumála á næstu árum. Ef einhver hugsun og samkvæmni væri fyrir hendi í málflutningi flokksins hlytu slíkar hugmyndir að koma fram. En það er auðvitað ekki raunin. Á sama tíma og Samfylkingin talar með þessum hætti lofar hún stórátaki í samgöngumálum og stórauknum framlögum til þess málaflokks.

Staðreyndin er raunar sú að Samfylkingin hefur gengið allra flokka lengst í útgjaldaloforðum fyrir þessar kosningar. Flokkurinn, sem í öðru orðinu talar almennum orðum um aðhald í ríkisrekstrinum, er á sama tíma tilbúinn að lofa auknum ríkisútgjöld upp á miklu hærri upphæðir á öllum sviðum en jafnvel Vinstri grænir. Þetta undirstrikaði sá ágæti stjórnmálamaður Steingrímur J. Sigfússon í Kastljósi um daginn og hafði greinilega áhyggjur af því hversu óábyrgir þessir félagar hans í kaffibandalaginu væru í efnahagsumræðunni.

Og ósamkvæmnin í málflutningi Samfylkingarinnar er svo mikil, að flokkurinn er hvorki tilbúinn til að leggja fram hugmyndir um niðurskurð á neinum öðrum sviðum eða skattahækkanir til að mæta þessum útgjaldaloforðum. Þess í stað láta talsmenn flokksins sér nægja að segja að þetta fjármagn fáist bara með hagvextinum á næstu árum. Hagvexti, sem auðvitað byggir á efnahagsstefnu undanfarinna ára, sem Samfylkingin þreytist ekki á að tala um sem óstjórn í efnahagsmálum. Ég held að íslenskir kjósendur hafi sjaldan orðið vitni að annarri eins hringavitleysu í málflutningi nokkurs stjórnmálaflokks.


Ekkert forsætisráðherraefni hjá Samfylkingunni?

Það hefur vakið athygli mína í kosningabaráttunni að Samfylkingin hefur að þessu sinni ekki minnst á forsætisráðherraefni sitt einu orði. Fyrir kosningarnar 2003 gekk öll barátta flokksins út á að kynna Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem forsætisráðherraefni og var það leiðarstefið í blaðaskrifum, auglýsingum og ræðum frambjóðenda. Svipað var uppi á teningnum 1999, þegar Samfylkingin bauð fyrst fram sem kosningabandalag Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Þjóðvaka og Kvennalista. Þá var forsætisráðherraefnið Margrét Frímannsdóttir og var hún kynnt sem slík í öllu kynningarefni flokksins, auglýsingum og öðrum málflutningi.

Nú er auglýsinga- og áróðurstæknin sem sagt önnur og má velta fyrir sér hvað valdi. Reynslan frá 1999 og 2003 var auðvitað ekki góð í ljósi þess að kjörfylgi Samfylkingarinnar reyndist miklu minna en væntingar stóðu til. Svo má auðvitað velta fyrir sér hvort hugmyndin um forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar hafi einfaldlega dáið morguninn eftir kjördag fyrir fjórum árum þegar Össur Skarphéðinsson hringdi í Halldór Ásgrímsson til að bjóða honum forsætisráðherrastólinn. Kannski sýndi það símtal best að allt talið um forsætisráðherraefnið hafði bara verið auglýsingaskrum og þegar það hentaði ætlaði "stóri jafnaðarmannaflokkurinn" að gera framsóknarmann að forsætisráðherra, eins og venja er í íslenskum vinstri stjórnum.


"Hagstjórnarmistök" Samfylkingarinnar

Ég heyri hvern Samfylkingarmanninn á fætur öðrum koma fram og hafa uppi stór orð um meint hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar. Síðast mátti heyra þetta í ræðum Árna Páls Árnasonar í Silfri Egils í dag. Þetta er athyglisvert af ýmsum sökum, ekki síst vegna þess að Samfylkingin lýsir því yfir í hinu orðinu að sá grunnur, sem ríkisstjórnin hefur lagt með efnahagsstefnu sinni, muni tryggja nægan hagvöxt á næstu árum til að standa undir hinum löngu loforðalistum flokksins. Það sjónarmið kom skýrt fram í viðtali Morgunvaktarinnar á Rás 1 við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á dögunum og viðtali við hana í Kastljósi nú í vikunni.

Þetta er líka athyglisvert í ljósi þess að ekki hefur borið á því að Samfylkingarmenn hafi fram að þessu beitt sér gegn þeim aðgerðum ríkisstjórnarinnar, sem flokkurinn talar um í dag sem hagstjórnarmistök.

Samfylkingarmenn hafa vísað til nokkurra aðgerða, sem þeir telja að feli í sér mistök. Þeir hafa nefnt stóriðjustefnu, skattalækkanir, breytingar á íbúðalánamarkaði og of lítið aðhald í ríkisrekstri.

Varðandi stóriðjustefnuna má minna á að 17 af 19 þingmönnum Samfylkingarinnar studdu byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversframkvæmdir á Reyðarfirði. Formaður flokksins greiddi fyrir þessum framvkæmdum þegar hún sat í embætti borgarstjóra. Telur Samfylkingin í dag að þessi stefna hafi verið mistök?

Samfylkingin studdi vissulega ekki skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. Það var hins vegar ekki á forsendum efnahagslegs stöðugleika. Flokkurinn hélt því aldrei fram á sínum tíma að það væri þensluhvetjandi að lækka skatta á almenning (það gerðu Vinstri grænir hins vegar), Samfylkingin sagðist þvert á móti deila því viðhorfi ríkisstjórnarflokkanna að það væri svigrúm til skattalækkana, hún vildi bara öðru vísi útfærðar skattalækkanir. Þetta má greinilega sjá af nefndarálitum og þingræðum talsmanna Samfylkingarinnar á sínum tíma.

Varðandi breytingar á íbúðalánamarkaðnum liggur líka fyrir að Samfylkingin lagðist ekki gegn stjórnarstefnunni. Í ótal þingræðum hvöttu Jóhanna Sigurðardóttir og aðrir talsmenn flokksins til þess að lánshlutföll og hámarksfjárhæðir lána væru hækkaðar. Raunar skömmuðu þessir ágætu þingmenn ríkisstjórnarflokkana fyrir að ganga ekki lengra. Ekki höfðu þeir áhyggjur af þensluhvetjandi áhrifum í því sambandi.

Og loks þegar vikið er að aðhaldi í ríkisrekstri, þá er málflutningur Samfylkingarmanna jafn ótrúverðugur. Í fjárlagaumræðu á hverju hausti hafa tveir eða þrír þingmenn flokksins vissulega fengið það hlutverk að minnast á nauðsyn aðhalds almennum orðum - án nokkurrar útfærslu. Aðrir þingmenn flokksins hafa - bæði við fjárlagaumræðuna og alla aðra starfsdaga þingsins - tekið að sér að hvetja til enn meiri útgjalda ríkisins. Sparnaðartillögurnar hafa svo að sjálfsögðu látið á sér standa. Það þarf því ekki að eyða miklum tíma í lestur á þingræðum og tillöguflutningi Samfylkingarinnar til að sjá, að útgjaldaþenslan hjá ríkinu hefði verið margfalt meiri á kjörtímabilinu hefði flokkurinn fengið einhverju um stjórnarstefnuna ráðið. Aðhaldið hefði ekki verið neitt.

Það er engin furða að Samfylkingarmenn skuli forðast umræður um efnahagsmál eins og heitan eldinn á lokaspretti þessarar kosningabaráttu. Þeir virtust ætla að hefja þá umræðu fyrir nokkrum vikum þegar greining Jóns Sigurðssonar á stöðu efnahagsmála var kynnt með miklum lúðrablæstri. Þeirri umræðu var ekki fylgt eftir með neinni stefnumörkun til framtíðar. Þess í stað láta frambjóðendur Samfylkingarinnar sér nægja að slá fram órökstuddum fullyrðingum, sem þola ekki neina skoðun - og allra síst upprifjun á fyrri orðum og gerðum.


Skattbyrði lágtekjufólks lægri hér en á Norðurlöndunum

Skattbyrði lágtekjufólks hefur nokkuð verið rædd í kosningabaráttunni og hefur sú umræða ekki alltaf byggst á staðreyndum eða gögnum. Þannig virðast fæstir gera sér grein fyrir því að skattbyrði þeirra hópa hér á landi sem lægst hafa launin er talsvert minni en gerist á hinum Norðurlöndunum. Þetta er umhugsunarefni í ljósi þess að talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa að undanförnu mjög viljað líta til Norðurlandanna í leit að fyrirmyndum í skattamálum.

Um þetta efni fjallaði Axel Hall, hagfræðingur og kennari við Háskólann í Reykjavík, í tveimur greinum í Fréttablaðinu í lok síðasta mánaðar. Axel byggir umfjöllun sína á gögnum frá OECD og kemst að þeirri niðurstöðu að þegar tekið hefur verið tillit til þeirra þátta, sem máli skipta í þessu sambandi, einkum skattleysismarka og mismunandi skatthlutfalla, barnabóta og annarra millifærslna í skattkerfinu, þá sé skattbyrðin á lágtekjufólk áberandi lægri á Íslandi en í hinum norrænu ríkjunum. Skattbyrðin er þannig tvöfalt hærri hjá lágtekjufólki í Danmörku en hér á landi og 50% hærri í Svíþjóð.

Ætli helstu stuðningsmenn "skandinavíska módelsins" í íslenskum stjórnmálum geri sér grein fyrir þessu?

 


Hæstu skattleysismörk á Norðurlöndum

Í umræðum um skattleysismörk og hugsanlega hækkun þeirra er nauðsynlegt að hafa í huga, að hér á landi eru þessi mörk afar há í samanburði við önnur lönd. Þannig eru skattleysismörk hér mun hærri en almennt gerist á Norðurlöndunum, sem auðvitað er oft litið til í þessu sambandi. Samanburður milli landa er reyndar ekki einhlítur því skattkerfin eru byggð upp með mismunandi hætti, skipting tekjuskatta milli ríkis og sveitarfélaga er misjöfn, sums staðar eru fleiri þrep í tekjuskattshlutfallinu en hér á landi og í sumum löndum er persónufrádráttur ýmist stighækkandi eða stiglækkandi í hlutfalli við hækkandi tekjur.

En jafnvel þótt tekið sé tillit til þessara mismunandi þátta fæst sú niðurstaða að skattleysismörk séu hærri hér en í hinum norrænu ríkjunum. Eftirfarandi tafla sýnir stöðuna árið 2005. Skattleysismörkin eru sem kunnugt er þau sömu fyrir alla hér á landi en varðandi hin löndin eru bæði gefin upp hámarks- og lágmarksmörk. Upphæðirnar sýna skattleysismörk á ári í íslenskum krónum.

Ríki og sveitarfélög
LandSkattleysismörk lágmark kr.Skattleysismörk hámark kr.
Danmörk395.650395.650
Finnland116.217302.321
Ísland900.732900.732
Noregur645.813896.310
Svíþjóð98.077243.501

Þess ber að geta að skattleysismörk hér á landi hafa hækkað verulega frá 2005 og eru nú um 1.080.000 kr. á ári eða 90 þúsund kr. á mánuði. Frá síðustu áramótum hafa þau einnig verið vísitölubundin og hækka því í samræmi við þróun vísitölu neysluverðs.

 


150.000 kr. skattleysismörk - 50 milljarða tekjutap

Fjármálaráðuneytið fjallar í vefriti sínu í dag um áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna hækkunar skattleysismarka. Skattleysismörkin hafa verið vinsælt umræðuefni í kosningabaráttunni og sumir stjórnarandstöðuflokkar hafa gefið afar glannalegar yfirlýsingar um áform sín í þeim efnum.

Af samantekt ráðuneytisins má sjá að hækkun skattleysismarka í 100.000 kr. á mánuði myndi leiða til samdráttar í tekjum ríkisins um 6,4 milljarða, hækkun í 120.000 kr. þýða tekjutap upp á meira en 25 milljarða og 150.000 kr. skattleysismörk myndu leiða til þess að ríkið hefði 50 milljörðum króna minna úr að spila á ári.

Í ljósi þess hvað hér getur verið um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða er nauðsynlegt að stjórnarandstöðuflokkarnir - einkum þeir sem mestu lofa í þessu sambandi - skýri nánar út hvernig þeir hyggjast mæta þeim mikla samdrætti í tekjum ríkisins sem þessar tillögur geta haft í för með sér. Ætla þeir að hækka aðra skatta gríðarlega eða hafa þeir hugmyndir um tugmilljarða niðurskurð í ríkisútgjöldum?


Skattbyrðin vex með hækkandi tekjum

Í umræðum um skattamál ber oft á þeim misskilningi, að núverandi fyrirkomulag tekjuskatts, sem byggir á einu skatthlutfalli yfir línuna, feli það í sér að allir borgi sama hlutfall tekna sinna í skatt. Staðreyndin er sú, að hár persónufrádráttur og skattleysismörk gerbreyta þeirri mynd. Þegar tekið er tillit til beggja þessara þátta sést raunveruleg skattbyrði einstaklinga og fer hún vaxandi eftir því sem tekjurnar verða hærri.

Í nýjasta vefriti fjármálaráðuneytisins er að finna athyglisverða umfjöllun um þetta efni. Þar kemur meðal annars fram að skattbyrði þess einstaklings sem er með 100 þúsund krónur í tekjur á mánuði er í dag 3,6% en hjá einstaklingi með 200 þúsund króna mánaðartekjur er hún 19,7%. Sá sem er með 500 þúsund krónur á mánuði er svo með skattbyrði upp á 29,3%. Þannig leiðir tekjuskattskerfi sem byggir á flatri prósentu og háum skattleysismörkum til þess að tekjuhærri einstaklingar greiða ekki bara hærri krónutölu í skatt heldur líka hærra hlutfall tekna sinna.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga í skattamálaumræðunni í aðdraganda kosninga. Þegar flokkar á borð við Samfylkinguna og Vinstri græna reifa með óljósum hætti hugmyndir um tilfærslur innan tekjuskattkerfisins - annað hvort með stighækkandi skatthlutfalli eða stiglækkandi persónufrádrætti eftir því sem tekjur verða hærri - þá eru þeir að leggja á ráðin um að auka þessi stigmögnunaráhrif verulega. Eins og ég hef áður bent á myndu slíkar hugmyndir stórauka flækjustigið bæði við álagningu og innheimtu skatta, leiða til þess að vægi staðgreiðslu myndi minnka og skattheimta eftir á aukast, auk þess sem jaðarskattshlutföll þyrftu að snarhækka ef markmiðið væri að láta tekjuskatta skila svipuðum tekjum og nú. Það er ekki að ástæðulausu sem menn horfa til Svíþjóðar í þessu sambandi, þar sem tekjuskattar geta numið allt að 60% með þeim afleiðingum að efnað fólk hefur í stórum stíl flust til annarra landa og greiðir skatta þar. Sænska ríkið missir því af skattgreiðslum þessa fólks með þeim afleiðingum að skattleggja þarf meðaljóninn enn frekar.

Ef Samfylkingin og Vinstri grænir ætla sér að ná fram breytingum í þessa veru - fara sænsku leiðina - er eins gott að þeir tali skýrt á næstu dögum svo kjósendur viti við hverju þeir megi búast komist þessir flokkar í aðstöðu til að mynda hér vinstri stjórn að kosningum loknum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband