Skattbyrðin vex með hækkandi tekjum

Í umræðum um skattamál ber oft á þeim misskilningi, að núverandi fyrirkomulag tekjuskatts, sem byggir á einu skatthlutfalli yfir línuna, feli það í sér að allir borgi sama hlutfall tekna sinna í skatt. Staðreyndin er sú, að hár persónufrádráttur og skattleysismörk gerbreyta þeirri mynd. Þegar tekið er tillit til beggja þessara þátta sést raunveruleg skattbyrði einstaklinga og fer hún vaxandi eftir því sem tekjurnar verða hærri.

Í nýjasta vefriti fjármálaráðuneytisins er að finna athyglisverða umfjöllun um þetta efni. Þar kemur meðal annars fram að skattbyrði þess einstaklings sem er með 100 þúsund krónur í tekjur á mánuði er í dag 3,6% en hjá einstaklingi með 200 þúsund króna mánaðartekjur er hún 19,7%. Sá sem er með 500 þúsund krónur á mánuði er svo með skattbyrði upp á 29,3%. Þannig leiðir tekjuskattskerfi sem byggir á flatri prósentu og háum skattleysismörkum til þess að tekjuhærri einstaklingar greiða ekki bara hærri krónutölu í skatt heldur líka hærra hlutfall tekna sinna.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga í skattamálaumræðunni í aðdraganda kosninga. Þegar flokkar á borð við Samfylkinguna og Vinstri græna reifa með óljósum hætti hugmyndir um tilfærslur innan tekjuskattkerfisins - annað hvort með stighækkandi skatthlutfalli eða stiglækkandi persónufrádrætti eftir því sem tekjur verða hærri - þá eru þeir að leggja á ráðin um að auka þessi stigmögnunaráhrif verulega. Eins og ég hef áður bent á myndu slíkar hugmyndir stórauka flækjustigið bæði við álagningu og innheimtu skatta, leiða til þess að vægi staðgreiðslu myndi minnka og skattheimta eftir á aukast, auk þess sem jaðarskattshlutföll þyrftu að snarhækka ef markmiðið væri að láta tekjuskatta skila svipuðum tekjum og nú. Það er ekki að ástæðulausu sem menn horfa til Svíþjóðar í þessu sambandi, þar sem tekjuskattar geta numið allt að 60% með þeim afleiðingum að efnað fólk hefur í stórum stíl flust til annarra landa og greiðir skatta þar. Sænska ríkið missir því af skattgreiðslum þessa fólks með þeim afleiðingum að skattleggja þarf meðaljóninn enn frekar.

Ef Samfylkingin og Vinstri grænir ætla sér að ná fram breytingum í þessa veru - fara sænsku leiðina - er eins gott að þeir tali skýrt á næstu dögum svo kjósendur viti við hverju þeir megi búast komist þessir flokkar í aðstöðu til að mynda hér vinstri stjórn að kosningum loknum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband