Ekkert forsætisráðherraefni hjá Samfylkingunni?

Það hefur vakið athygli mína í kosningabaráttunni að Samfylkingin hefur að þessu sinni ekki minnst á forsætisráðherraefni sitt einu orði. Fyrir kosningarnar 2003 gekk öll barátta flokksins út á að kynna Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem forsætisráðherraefni og var það leiðarstefið í blaðaskrifum, auglýsingum og ræðum frambjóðenda. Svipað var uppi á teningnum 1999, þegar Samfylkingin bauð fyrst fram sem kosningabandalag Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Þjóðvaka og Kvennalista. Þá var forsætisráðherraefnið Margrét Frímannsdóttir og var hún kynnt sem slík í öllu kynningarefni flokksins, auglýsingum og öðrum málflutningi.

Nú er auglýsinga- og áróðurstæknin sem sagt önnur og má velta fyrir sér hvað valdi. Reynslan frá 1999 og 2003 var auðvitað ekki góð í ljósi þess að kjörfylgi Samfylkingarinnar reyndist miklu minna en væntingar stóðu til. Svo má auðvitað velta fyrir sér hvort hugmyndin um forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar hafi einfaldlega dáið morguninn eftir kjördag fyrir fjórum árum þegar Össur Skarphéðinsson hringdi í Halldór Ásgrímsson til að bjóða honum forsætisráðherrastólinn. Kannski sýndi það símtal best að allt talið um forsætisráðherraefnið hafði bara verið auglýsingaskrum og þegar það hentaði ætlaði "stóri jafnaðarmannaflokkurinn" að gera framsóknarmann að forsætisráðherra, eins og venja er í íslenskum vinstri stjórnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband