Kaupmáttur, skattbyrði og skattstjórinn fyrrverandi

Hvernig ætli skattbyrði hefði þróast á Íslandi undanfarin ár ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki beitt sér fyrir verulegri lækkun skatthlutfalla einstaklinga og fyrirtækja og afnámi ýmsa skatta? Ég velti þessu fyrir mér í tilefni af skrifum Indriða H. Þorlákssonar, fyrrum ríkisskattstjóra, sem að undanförnu hefur birt greinar um skattamál og skattbyrði hér á blogginu. Ýmislegt er áhugavert í skrifum Indriða, enda þekkir hann skattkerfið vel, en ég sé hins vegar ekki tilraun af hans hálfu til að svara þessari spurningu. Í mínum huga er þetta atriði þó afar mikilvægt þegar lagt er mat á áhrifin af skattastefnu ríkisstjórna undanfarinna ára.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir að við svona "hvað ef" spurningum er ekki til neitt einhlítt svar. Hins vegar er rökrétt að álykta að þróun þessara mála hefði getað orðið á tvo vegu. Annars vegar má halda því fram að óbreytt skatthlutföll hefðu haft í för með sér enn þyngri skattbyrði en nú er raunin, að því gefnu að tekjur einstaklinga og fyrirtækja hefðu vaxið jafn mikið og skattstofninn stækkað með þeim hætti sem orðið hefur undanfarin ár. Hins vegar hefði atburðarásin líka getað orðið á þá leið að tekjurnar hjá atvinnulífinu og heimilunum hefðu ekki aukist með þessum hætti heldur staðið í stað og þá hefði reiknuð skattbyrði að sjálfsögðu ekki aukist heldur. En það er að minnsta kosti erfitt að sjá fyrir sér, að óbreytt skattastefna hefði undir nokkrum kringumstæðum getað leitt til lægri skattbyrði.

Mér sýnist Indriði gera þá grundvallarskekkju í umfjöllun sinni, að ganga út frá því að skattstofninn sé með einhverjum hætti óbreytanlegur fasti og að skattalagabreytingar geti ekki haft áhrif á það hvort hann stækki eða minnki. Ég er þeirrar skoðunar að reynsla okkar Íslendinga sýni einmitt hið gagnstæða. Skattalagabreytingar undanfarinna ára, veruleg lækkun fyrirtækjaskatta, stöðug lækkun skatthlutfalla einstaklinga, einföld og hagstæð skattlagning fjármagnstekna, lækkun neysluskatta, afnám eignarskatts og sérstaks tekjuskatts og fleiri breytingar, hafa átt verulegan þátt í því að örva efnahagslífið og auka verðmætasköpun í samfélaginu. Allar þessar breytingar hafa - ásamt öðrum aðgerðum ríkisstjórna síðustu ára - orðið til þess að stækka skattstofninn og styrkja þannig grundvöll tekjuöflunar ríkis og sveitarfélaga um leið og hagur skattgreiðenda hefur vænkast. 

Að lokum er svo auðvitað rétt að minna á, að allar mælingar sýna að uppgangurinn í efnahagslífinu hefur skilað sér til landsmanna með stórauknum kaupmætti ráðstöfunartekna. Aukningin var 56% milli áranna 1994 og 2005 samkvæmt rannsókn Hagstofunnar og miðað við nýja þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins verður hún 75% á tímabilinu frá 1994 til 2007. Þegar þessi kaupmáttaraukning er reiknuð út er búið að taka tillit til verðbólgu, kostnaðar vegna íbúðakaupa, lífeyrisiðgjalda, bóta úr opinberum sjóðum og að sjálfsögðu skatta. Reiknuð skattbyrði hefur aukist en kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur bara aukist miklu meira. Þegar upp er staðið hlýtur það að skipta höfuðmáli fyrir hag heimilanna í landinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hagbarður

Sæll Birgir

Ég er alveg gáttaður á þessari grein þinn og á hvern hátt þú getur nálgast þetta og komið síðan fram með þessa niðurstöðu. Þvert á niðurstöðu manns sem eytt hefur mestum parti ævi sinnar við fjárlagagerð og skattheimtu og er mjög gegn og grandvar maður. Ég er gamall og flokksbundinn Sjálfstæðismaður, hef alltaf haft að heiðri þær hugmyndir sem flokkurinn var upphaflega stofnaður um. Frelsi einstaklingsins og einkaframtaksins. Því miður verð ég að segja að þið þessir ungu menn hafið ekki þá hugsjón sem við hinir eldri höfðum. Þið setjið allt á ríkisreksturinn, aukið útgjöldin, sem nú nema 42% af landsframleiðslu og er það met ef ég veit rétt. Bruðlið með almannafé og hafið lítið vit á rekstri, enda enginn ykkar komið nálægt rekstri eða migið í saltan sjó eins við köllum það hérna.

Ég er búinn að fá nóg af þessari þvælu ykkar um bættan hag, veit það sjálfur hvernig mín kjör hafa rýrnað á undanförnum árum. En lygina má lengi reyna, það lengi að hún verði álitin sannleikur. Helst fer ég að hallast að því að þið farið að slá út mesta lygamörð sögunnar, sjálfan Göbbels.

Það er ekki nógu góð stjórnun  á fjármálum ríkisins og skattbyrðinni er ekki réttlátlega dreift. Verðbólgan er komin úr böndum, mælist nú yfir 6%, þrátt fyrir 9% styrkingu kr. frá áramótum og afnám vsk. og vörugjalda. Nær væri að ætla að verðbólgan væri 15%, sérstaklega þegar verðbólgan fer af stað og Hrunadansinum lýkur. Já Birgir þetta er Hrunadans, ég er gamall rekstrarmaður, þekki pólitíkina vel og veit að þið siglið of nærri landi á fullum seglum með áhöfn ´sem er mismunað. Öll teikn segja manni að það þurfi að rifa seglin, færa sig dýpra og sætta áhöfnina. Svo einfalt er það. En þið berjið hausnum enn við steininn og því miður hefur það leitt til þess að mitt atkvæði lendir í fyrsta skiptið ekki hjá mínum gamla flokki.

Kv.

Hagbarður

Hagbarður, 11.5.2007 kl. 18:59

2 Smámynd: Auðun Gíslason

Einkennilegt að ætlast til að einhver svari svonalagaðri spurningu.  Barnalegur Heimdallar málflutningur. Hvað ef þetta og hitt? Indriði er að lýsa skattkerfinu, hvernig það er og hvernig það hefur þróast.  Öll svör við svona spurningum eru einfaldlega hugarleikfimi og byggð á fyrirfram skoðunum um niðurstöðuna! Tími til kominn að hætta svona málflutningi.

Auðun Gíslason, 11.5.2007 kl. 22:34

3 identicon

Getur þú útskýrt hvaða lögmál valdi því að skattalækkun í formi hækkaðs perónuafsláttar örfi ekki efnahagslífið með sama hætti og skattalækkun í formi lækkaðrar skattprósentu?

Sigurður M. Grétarsson (IP-tala skráð) 12.5.2007 kl. 00:29

4 Smámynd: haraldurhar

Sæll Birgir.

    Þessi skif þín eru lýsing á alvarlegu ástandi sem ríkir hjá Sjálfstæðisfokknum, sem lýsir sér í alvarlegri afneitun ykkar á staðreyndum, sem öllum sem skoða málið eru ljósar. Það nokk sama hvað sett er fyrir framan ykkur eins og skif Indriða, Davíðs, eða svo maður tali nú ekki um það sem Stefán Ólafsson hefur látið fara frá sér.  Þá eru alltaf sömu viðbrögðin bull og vitleysa við vitum betur. 

Stýrivextir 14.25% fynnast ekki hjá neinni þjóð  9% hærra en í Us. 11 hærra en Eurolandi, Þér hlýtur að vera ljóst að erl fjárfestar, og bankar, kaupa ísl. kr. eins og lottomiða. Enginn þjóð sem vill láta taka sig alvarlega, dytti´í hug þvíklikt bull.  Þessir vextir hafa að vitaskuld stuðlað að rangskráningu kr. og er hún að minnsta kosti ofskráð um 30%. Leiðrétting verur skörp, þegar þeir hefja sölu. 

Verðbólga langt yfir önnur lönd sem við berum okkur saman við.

Ríkisútgjöld sem nema 42% af landsframleiðslu.

Skattpíningu á láglaunafolk,   Skattleysismörk þjóðarskömm

 Viðskiptahalla í hæstu hæðum

Samdráttur í úflutningstekjum

    Framangrein atriði eru hér sett fram fyrir þig, með von að þu farir að nota það sem Guð gaf þér, en lepja upp sömu vitleysuna hver eftir öðrum sí og æ.

haraldurhar, 12.5.2007 kl. 00:37

5 Smámynd: Þórbergur Torfason

Enn og aftur reynir stuttbuxnadeild íhaldsins að telja, ég skil bara ekki hverjum, trú um að allir hafi að svo gott. Það vita það allir að við Bjarni Ármannsson höfum að meðaltali prýðislaun en það segir bara svo sáralítið um launin mín. Niðurstaðan er sú að að meðaltali er allt gott. Sigurður og Hreiðar Már ásamt allavega fjórum eldri borgurum og um það bil 15 öryrkjum eru á alveg sæmilegum launum. Líklega um það bil sem svarar þingfararkaupi. Þetta meðaltalskjaftæði er alveg óþolandi og meðaltalsflokkarnir þar með gjörsamlega óþolandi.

Þórbergur Torfason, 12.5.2007 kl. 10:57

6 Smámynd: Þórir Kjartansson

Hér er enn einn fyrrverandi sjálfstæðismaður, sem er hjartanlega sammála ofanrituðum kommentum.

Þórir Kjartansson, 12.5.2007 kl. 13:06

7 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Ég tek nú mark á Indriða var að vinna hjá RSK og kynntist honum vel þar og ég mundi aldrei draga orð hans í efa...

Inga Lára Helgadóttir, 17.5.2007 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband