Blekkingarleikur um kosningavíxla

Samfylkingin þreytist ekki á frasanum um 400 milljarða kosningavíxla ríkisstjórnarinnar fyrir þessar kosningar. Talsmenn flokksins hafa hins vegar látið ógert að útskýra hvernig þeir fái út þessa tölu. Það er ekki nema von. Staðreyndin er sú að 95% af þessari fjárhæð er fengin með því að leggja saman öll útgjöld til vegamála, hafnamála, flugmála og annarra samgöngumála til næstu 12 ára samkvæmt samgönguáætlun, sem samgönguráðherra lagði fram á vorþingi, eins og honum ber skylda til samkvæmt lögum. 

Sú spurning hlýtur að vakna þegar hlustað er á hneykslunartóninn hjá Samfylkingunni vegna þessarar fjárhæðar, hvort flokkurinn hafi í hyggju að skera niður framlög til samgöngumála á næstu árum. Ef einhver hugsun og samkvæmni væri fyrir hendi í málflutningi flokksins hlytu slíkar hugmyndir að koma fram. En það er auðvitað ekki raunin. Á sama tíma og Samfylkingin talar með þessum hætti lofar hún stórátaki í samgöngumálum og stórauknum framlögum til þess málaflokks.

Staðreyndin er raunar sú að Samfylkingin hefur gengið allra flokka lengst í útgjaldaloforðum fyrir þessar kosningar. Flokkurinn, sem í öðru orðinu talar almennum orðum um aðhald í ríkisrekstrinum, er á sama tíma tilbúinn að lofa auknum ríkisútgjöld upp á miklu hærri upphæðir á öllum sviðum en jafnvel Vinstri grænir. Þetta undirstrikaði sá ágæti stjórnmálamaður Steingrímur J. Sigfússon í Kastljósi um daginn og hafði greinilega áhyggjur af því hversu óábyrgir þessir félagar hans í kaffibandalaginu væru í efnahagsumræðunni.

Og ósamkvæmnin í málflutningi Samfylkingarinnar er svo mikil, að flokkurinn er hvorki tilbúinn til að leggja fram hugmyndir um niðurskurð á neinum öðrum sviðum eða skattahækkanir til að mæta þessum útgjaldaloforðum. Þess í stað láta talsmenn flokksins sér nægja að segja að þetta fjármagn fáist bara með hagvextinum á næstu árum. Hagvexti, sem auðvitað byggir á efnahagsstefnu undanfarinna ára, sem Samfylkingin þreytist ekki á að tala um sem óstjórn í efnahagsmálum. Ég held að íslenskir kjósendur hafi sjaldan orðið vitni að annarri eins hringavitleysu í málflutningi nokkurs stjórnmálaflokks.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband