29.5.2007 | 15:00
Skattaleg samkeppni í Evrópu fer harðnandi
Bloomberg-fréttastofan fjallar í dag um harðnandi samkeppni milli Evrópuþjóða í skattlagningu fyrirtækja. Fram kemur að ýmis stærri ríki álfunnar vinni nú að því að lækka fyrirtækjaskatta til þess að mæta aukinni skattalegri samkeppni í stað þess að agnúast út í minni ríki fyrir að bjóða betur í þessum efnum. Í þessu felast skýr skilaboð til okkar Íslendinga um að við verðum að halda áfram á braut skattalækkana ef við viljum ekki glutra niður hagstæðri samkeppnisstöðu á þessu sviði.
Í frétt Bloomberg kemur að tekjuskattshlutfall á fyrirtæki innan Evrópusambandsins sé nú að meðaltali 26% og fari áfram lækkandi vegna áforma stjórnvalda í mörgum stærstu ríkjum sambandsins. Gordon Brown hefur lýst yfir vilja til að lækka hæsta hlutfallið í Bretlandi úr 28% í 26% og neðri deild þýska þingsins hefur samþykkt tillögu Angelu Merkel kanslara um lækkun úr 39% í 30%. Hinn nýkjörni forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, hefur lofað verulegri lækkun þar í landi og svipuð viðhorf eru uppi á Ítalíu og Spáni.
Írland er enn í sérflokki þegar horft er til skattlagningar fyrirtækja í Vestur-Evrópu en þar er almennt skatthlutfall 12,5%. Írar hafa á síðustu tveimur áratugum stigið stór skref í átt að hagstæðara starfsumhverfi fyrirtækja - ekki síst á sviði skattamála - og hefur það skilað sér í gríðarlegri uppsveiflu, sem stundum er nefnt írska efnahagsundrið. Í hinum nýju aðildarríkjum ESB í Mið- og Austur-Evrópu eru þessir skattar líka víða lágir og hefur það átt ríkan þátt í uppbyggingu atvinnulífsins þar á síðustu árum. Engin merki eru um að þessi ríki hyggist hverfa af þessari braut og nú er komið á daginn að gömlu stórveldin innan Evrópusambandsins ætla að fylgja í kjölfarið, í stað þess að reyna að knýja smærri ríkin til að laga sig að sínum háttum.
Frétt Bloomberg leiðir hugann að stöðu mála hér á landi. Síðustu ríkisstjórnir hafa stigið veruleg skref í þá átt að gera íslenskt skattaumhverfi hagstætt fyrir atvinnulífið. Fyrir fimm árum var tekjuskattshlutfallið lækkað í 18% og haldið hefur verið fast við þá stefnu að halda fjármagnstekjuskatti í 10%. Þetta hafa stjórnarandstæðingar á hverjum tíma oft kallað dekur við fyrirtæki og fjármagn, en árangurinn er ótvíræður. Hagstætt skattalegt umhverfi hefur átt afar mikinn þátt í þeirri uppsveiflu í atvinnulífinu sem við höfum upplifað á síðustu árum og niðurstaðan er sú að lægri skatthlutföll hafa skilað margföldum skatttekjum í ríkissjóð miðað við það sem áður var.
En með þessu er ekki sagt að við getum látið staðar numið í þessum efnum. Skatthlutföllin sem slík segja ekki alla söguna. Þótt skatthlutföll hér á landi séu enn með þeim hagstæðustu geta komið til aðrir þættir sem draga úr forskoti okkar. Víða í nágrannalöndunum eru frádráttarliðir og undanþágur af ýmsu tagi mun fleiri og mikilvægari en hér á landi. Það var meðvituð ákvörðun íslenskra stjórnvalda á sínum tíma að byggja upp einfalt kerfi með lágum hlutföllum og fáum undantekningum. Ef við viljum halda okkur við þá stefnu, en á sama tíma tryggja að við glötum ekki þeirri góðu stöðu sem við höfum haft að þessu leyti, þá liggur fyrir að lækka verður tekjuskattshlutfallið enn frekar. Það er því fagnaðarefni að ný ríkisstjórn Geirs H. Haarde hefur undirstikað vilja sinn í þeim efnum í stjórnarsáttmálanum sem kynntur var í síðustu viku. Ekki liggur enn fyrir hve stór skref verða tekin á þessu kjörtímabili, en spyrja má hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að við förum írsku leiðina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Írar búa við strangt verðlagseftirlit, samkeppnislöggjöf, innflytjendapólitík, velferðarkerfi, íbúðalýðræði, reglugerðir er snúa að uppkaupum erlendra fyrirtækja á írskum. Þeir hafa þotið áfram í hátækniiðnaði og eru skuldlitlir. Fjármálaeftirlitið er gríðarlega strangt og yfirtökuskyldur og upplýsingakerfi um hlutabréfaeignir eru ljósari. Hér er allt þetta í messi og skattur á fyrirtæki oftar en ekki í raun skattalækkun á einstaklinga sem kunna að kljúfa kerfið í herðar niður. Eða réttara sagt kerfisleysið. Er ekki í lagi að byrja á réttum enda og hætt að blindast af stöðugum áróðri Kaupþingsforstjórans? Hann einn og sér er fyrirtæki. Eða? Það er með ólíkindum að þið getið ekki horfst í augu við það að skattalækkunin ein og sér tryggir ekki að fyrirtæki komi hingað til lands. Samkeppnisumhverfið er gríðarlega óvinveitt nýjum aðilum þar sem fákeppnin er mikil á öllum sviðum og hún fer versnandi án þess að stjórnvöld geri nokkurn hlut! Eftir að þessi mál komast í lag þá geta allir verið ánægðir með skattalækkanir á fyrirtæki. En ekki núna! Skilgreinið fyrst hvað er fyrirtæki og hvað er einstaklingur.
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 29.5.2007 kl. 15:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.