Þetta gerist bara með hagvextinum!

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var í Kastljósi í gær og lét þar að mestu ógert að útskýra efnahagsstefnu Samfylkingarinnar. Aðspurð greindi hún reyndar frá því að loforðapakki flokksins myndi kosta um 30 milljarða króna í auknum ríkisútgjöldum þegar hann væri að fullu kominn til framkvæmda, líklega við lok næsta kjörtímabils. Þegar hún var spurð hvernig ætti að fjármagna þetta varð henni í fyrstu nokkuð tregt um svör en bætti síðan við: "Það gerist bara með hagvextinum". Sennilega var þetta  eina svarið sem hún gat gefið, því Samfylkingin hefur fyrir þessar kosningar hvorki gengist við því að vilja auka heildarskattheimtu né lagt fram nokkrar tillögur til sparnaðar hjá ríkinu.

En það liggur sem sagt fyrir að Ingibjörg Sólrún telur að efnahagslegar forsendur séu fyrir auknum hagvexti á næstu árum og það muni skila ríkissjóði stórauknum tekjum. Rétt er að hafa í huga að Samfylkingin hefur ekki lagt fram áform um neinar breytingar á starfsumhverfi atvinnulífsins eða öðrum þeim forsendum, sem hagvöxtur hlýtur að byggja á næstu árin, fyrir auðvitað utan 5 ára stóriðjustopp og sú aðgerð er vissulega ekki til þess fallin að auka hagvöxtinn. Í ljósi þess verður ekki annað ráðið af þessu svari en hún telji ástandið í efnahagsmálum býsna gott og framtíðarhorfur góðar. Það er í sjálfu sér í ágætu samræmi við málflutning okkar sjálfstæðismanna, en hins vegar í hrópandi ósamræmi við málflutning Samfylkingarmanna, sem að undanförnu hafa talað hver í kapp við annan um hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar. Það felst einhver grundvallarmótsögn í þessum málflutningi. Ef ríkisstjórnin hefði klúðrað efnahagsmálunum eins og Samfylkingin heldur stundum fram, þá væru auðvitað ekki forsendur til að reikna með kröftugum hagvexti á næstu árum.

Hitt er svo annað mál að stórlega má efast um að loforðalistar Samfylkingarinnar - sem raunar lengjast dag frá degi - séu bara upp á 30 milljarða króna. Mér sýnist í fljótu bragði að þar sé um verulega hærri fjárhæðir að ræða. Meira um það síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband