Kaupmáttaraukningin 75% frá 1994

Hagstofan greindi fyrir skömmu frá því að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði aukist í landinu um 56% á tímabilinu 1994 til 2005. Fjármálaráðuneytið birti í gær nýja þjóðhagsspá þar sem koma fram upplýsingar sem sýna að þessi kröftuga kaupmáttaraukning hafi haldið áfram. Miðað við fyrirliggjandi forsendur var aukningin frá 2005 til 2006 um 6% og gert er ráð fyrir sambærilegri aukningu milli áranna 2006 og 2007. Niðurstaðan er því sú að kaupmátturinn hafi á þessu ári aukist um 75% frá árinu 1994.

Mikilvægt er að hafa í huga að þegar þessar niðurstöður um kaupmátt ráðstöfunartekna eru reiknaðar út er að sjálfsögðu tekið tillit til verðbólgu og fólksfjölgunar. Í útreikningunum er miðað við þróun tekna en um leið horft til útgjalda á borð við skatta, iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóða og vaxtagjalda, meðal annars vegna íbúðakaupa.

Þetta síðastnefnda er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga í ljósi þess áróðurs, sem rekinn hefur verið af hálfu stjórnarandstöðunnar að undanförnu. Sá málflutningur hefur í sem fæstum orðum gengið út á að ekkert sé að marka upplýsingar ríkisstjórnarinnar um bætt lífskjör í landinu því verðbólga og vaxtahækkanir hafi á síðustu misserum étið upp kaupmáttaraukninguna. Niðurstöður Hagstofunnar og nýjar upplýsingar fjármálaráðuneytisins, sem byggðar eru á sömu forsendum, afsanna þetta tal með óyggjandi hætti. Kaupmátturinn hefur aukist gríðarlega - og það þótt búið sé að taka tillit til verðbólgu og vaxta.

Það er svo rétt að taka fram að lokum að kaupmáttaraukningin hérlendis hefur verið miklu meiri en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Norðmenn hafa að vísu notið sambærilegra kjarabóta á undanförnum árum en annars staðar hefur árangurinn verið miklu minni.

 


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Velkominn Birgir! :)

Hjörtur J. Guðmundsson, 25.4.2007 kl. 01:32

2 identicon

Velkominn í umræðuna á blogginu.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 09:56

3 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Eruð þið virkilega enn að þræta fyrir það að láglaunafólk er að borga HLUTFALLSLEGA hærri skatta en hinir?  Það er engin að þræta fyrir kaupmáttaraukninguna almennt séð.   Þó almennur kaupmáttur hafi aukist undanfarin ár þá breytir það því ekki að hann hefur aukist meira hjá þeim hærra launuðu.  Þannig að bilið á milli hinna ríku og hinna efnaminni er alltaf að breikka.  Það er með ólíkindum að menn víla ekki fyrir sér áróður af þessu tagi.  Því það er engin hlutlaus aðili til þess að fjalla um efnahagsmálin í landinu eins og áður var. Auðvitað ætti Hagstofan að hafa þetta hlutverk í dag eftir að Þjóðhagsstofnun hætti en þeir treysta sér greinilega ekki til þess og láta óátalið að hagtölum sé hagrætt í áróðursskyni. Þrátt fyrir það sem þú segir í upphafi pisils þíns stendur eftir að það er himinn og haf á milli kaupmáttaraukningarinnar hjá þeim efnameiri og þeim efnaminni.  Það er málið.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 25.4.2007 kl. 14:01

4 identicon

Þetta er flott með kaupmáttaraukninguna. Ef launin mín og Bjarna Ármarnssonar væru   borin saman og deilt í tvo þá væri kaupmáttaraukningin hjá mér líklega á þriðja þúsund prósend.

Sigurður (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 20:57

5 Smámynd: Auðun Gíslason

Ég segi það, hvað eru svo öryrkja og aldraðir að kvarta? Já, og þessir geðfötluðu og þessi Davíð í Seðlabankanum. Meira pakkið, aldrei hægt að gera þessu til geðs!

Auðun Gíslason, 25.4.2007 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband