Er kaupmáttaraukningin náttúrulögmál?

Í kosningabaráttu þarf stundum að eyða talsverðri orku í að koma einföldum upplýsingum á framfæri. Þannig hafa nýjar upplýsingar um þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna undanfarinna ára skilað sér sérstaklega seint til forystumanna í stjórnarandstöðunni. Þessi þróun hefur raunar verið enn jákvæðari en jafnvel við hörðustu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar þorðum að vona; 56% kaupmáttaraukning frá 1994 til 2005 samkvæmt vandaðri rannsókn Hagstofunnar og útlit fyrir að aukningin verði alls 75% frá 1994 til 2007 miðað við upplýsingar úr þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytisins.

En nú virðast talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna hættir að draga þessar upplýsingar í efa eins og kom fram í máli þeirra í kjördæmaþætti Stöðvar 2 frá Reykjavíkurkjördæmi suður fyrr í kvöld. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti ástandinu í landinu undanfarin ár meira að segja sem góðæri. Það eru vissulega þó nokkur tíðindi að heyra það orð frá henni í þessu samhengi þótt hagtölur hafi auðvitað sýnt þessa stöðu í langan tíma.

Á hinn bóginn mátti ráða það af tali Ingibjargar Sólrúnar, Kolbrúnar Halldórsdóttur og annarra fulltrúa stjórnarandstöðunnar að góðærið og kaupmáttaraukningin hefði einhvern veginn komið til af sjálfu sér. Okkur Íslendingum hefði bara vegnað vel - kannski fyrir heppni - og ríkisstjórnin ætti þar engan hlut að máli. Jón Magnússon, fulltrúi Frjálslynda flokksins, sagði reyndar að helst mætti hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa ekki þvælst fyrir þessari þróun og verður að telja það allnokkra viðurkenningu úr hans munni, enda sýnir reynslan að afskipti ríkisstjórna eru einmitt oft til þess fallin að tefja og trufla verðmætasköpun og lífskjarabætur. Reynslan frá tíð síðustu vinstri stjórnar er einmitt gott dæmi um það.

En auk þess að láta ógert að þvælast fyrir þróuninni geta ríkisstjórnir gert ýmislegt gagnlegt til að örva atvinnulífið og skapa skilyrði fyrir hagvexti og kaupmáttaraukningu. Nokkrar stefnumarkandi ákvarðanir ríkisstjórna undanfarinna 16 ára hafa einmitt verið til þess fallnar að skapa slík skilyrði. EES-samningurinn var gríðarlega mikilvæg forsenda þessarar þróunar og sama má segja um skattalækkanir á atvinnulífið, aukið frelsi í viðskiptum og aðrar umbætur á starfsskilyrðum fyrirtækjanna í landinu. Einkavæðing opinberra fyrirtækja - ekki síst bankanna - leysti úr læðingi mikla krafta í atvinnulífinu og skynsamlegt stjórnkerfi fiskveiða og uppbygging á sviði orkufreks iðnaðar hefur líka orðið til þess að efla efnahagslífið. Allir þessir þættir í stjórnarstefnu undanfarinna ára hafa verið umdeildir og orðið stjórnarandstöðunni á hverjum tíma tilefni til harðra árása á stjórnarflokkana. Reynslan hefur hins vegar sýnt að úrtölumennirnir höfðu rangt fyrir sér og árangur stefnunnar hefur ótvírætt komið í ljós, meðal annars með hinni miklu kaupmáttaraukningu.

Samanburður við önnur lönd sýnir líka að það er alls ekki sjálfgefið að kaupmáttur aukist í þeim mæli sem orðið hefur hér á landi. Í áðurnefndri þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytisins kemur þannig fram að kaupmáttaraukningin hér á landi á árunum 1994 til 2005 átti sér aðeins hliðstæðu í Noregi. Þar var kaupmáttaraukningin reyndar örlítið meiri yfir þetta tímabil en hér á landi en í öðrum helstu samanburðarlöndum var útkoman mun lakari. Við náðum eins og áður segir 56% aukningu en næst á eftir okkur koma Bandaríkin og Finnland með rétt um 40%, Bretland með tæp 35%, Kanada með rúmlega 30% og Frakkland aðeins undir 30%. Í Svíþjóð og Danmörku var aukningin á viðmiðunartímabilinu í kringum 20%. Þróunin hér hefur því verið miklu jákvæðari en í nágrannalöndunum, að Noregi einum undanskildum. Það er því alrangt, sem stundum er haldið fram, að árangur okkar sé svo sem ekkert sérstakur, lífskjörin hafi batnað jafn mikið í löndunum í kringum okkur. Slíkar fullyrðingar standast einfaldlega ekki skoðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband