6.5.2007 | 13:35
"Hagstjórnarmistök" Samfylkingarinnar
Ég heyri hvern Samfylkingarmanninn á fætur öðrum koma fram og hafa uppi stór orð um meint hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar. Síðast mátti heyra þetta í ræðum Árna Páls Árnasonar í Silfri Egils í dag. Þetta er athyglisvert af ýmsum sökum, ekki síst vegna þess að Samfylkingin lýsir því yfir í hinu orðinu að sá grunnur, sem ríkisstjórnin hefur lagt með efnahagsstefnu sinni, muni tryggja nægan hagvöxt á næstu árum til að standa undir hinum löngu loforðalistum flokksins. Það sjónarmið kom skýrt fram í viðtali Morgunvaktarinnar á Rás 1 við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á dögunum og viðtali við hana í Kastljósi nú í vikunni.
Þetta er líka athyglisvert í ljósi þess að ekki hefur borið á því að Samfylkingarmenn hafi fram að þessu beitt sér gegn þeim aðgerðum ríkisstjórnarinnar, sem flokkurinn talar um í dag sem hagstjórnarmistök.
Samfylkingarmenn hafa vísað til nokkurra aðgerða, sem þeir telja að feli í sér mistök. Þeir hafa nefnt stóriðjustefnu, skattalækkanir, breytingar á íbúðalánamarkaði og of lítið aðhald í ríkisrekstri.
Varðandi stóriðjustefnuna má minna á að 17 af 19 þingmönnum Samfylkingarinnar studdu byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversframkvæmdir á Reyðarfirði. Formaður flokksins greiddi fyrir þessum framvkæmdum þegar hún sat í embætti borgarstjóra. Telur Samfylkingin í dag að þessi stefna hafi verið mistök?
Samfylkingin studdi vissulega ekki skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. Það var hins vegar ekki á forsendum efnahagslegs stöðugleika. Flokkurinn hélt því aldrei fram á sínum tíma að það væri þensluhvetjandi að lækka skatta á almenning (það gerðu Vinstri grænir hins vegar), Samfylkingin sagðist þvert á móti deila því viðhorfi ríkisstjórnarflokkanna að það væri svigrúm til skattalækkana, hún vildi bara öðru vísi útfærðar skattalækkanir. Þetta má greinilega sjá af nefndarálitum og þingræðum talsmanna Samfylkingarinnar á sínum tíma.
Varðandi breytingar á íbúðalánamarkaðnum liggur líka fyrir að Samfylkingin lagðist ekki gegn stjórnarstefnunni. Í ótal þingræðum hvöttu Jóhanna Sigurðardóttir og aðrir talsmenn flokksins til þess að lánshlutföll og hámarksfjárhæðir lána væru hækkaðar. Raunar skömmuðu þessir ágætu þingmenn ríkisstjórnarflokkana fyrir að ganga ekki lengra. Ekki höfðu þeir áhyggjur af þensluhvetjandi áhrifum í því sambandi.
Og loks þegar vikið er að aðhaldi í ríkisrekstri, þá er málflutningur Samfylkingarmanna jafn ótrúverðugur. Í fjárlagaumræðu á hverju hausti hafa tveir eða þrír þingmenn flokksins vissulega fengið það hlutverk að minnast á nauðsyn aðhalds almennum orðum - án nokkurrar útfærslu. Aðrir þingmenn flokksins hafa - bæði við fjárlagaumræðuna og alla aðra starfsdaga þingsins - tekið að sér að hvetja til enn meiri útgjalda ríkisins. Sparnaðartillögurnar hafa svo að sjálfsögðu látið á sér standa. Það þarf því ekki að eyða miklum tíma í lestur á þingræðum og tillöguflutningi Samfylkingarinnar til að sjá, að útgjaldaþenslan hjá ríkinu hefði verið margfalt meiri á kjörtímabilinu hefði flokkurinn fengið einhverju um stjórnarstefnuna ráðið. Aðhaldið hefði ekki verið neitt.
Það er engin furða að Samfylkingarmenn skuli forðast umræður um efnahagsmál eins og heitan eldinn á lokaspretti þessarar kosningabaráttu. Þeir virtust ætla að hefja þá umræðu fyrir nokkrum vikum þegar greining Jóns Sigurðssonar á stöðu efnahagsmála var kynnt með miklum lúðrablæstri. Þeirri umræðu var ekki fylgt eftir með neinni stefnumörkun til framtíðar. Þess í stað láta frambjóðendur Samfylkingarinnar sér nægja að slá fram órökstuddum fullyrðingum, sem þola ekki neina skoðun - og allra síst upprifjun á fyrri orðum og gerðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Finnst þér ekkert fyndið, Birgir, að helstu rök stjórnarandstöðunnar í efnahagsmálum skuli vera "stolin" frá Seðlabankanum og Samtökum iðnaðarins? Skrýtið!
Auðun Gíslason, 6.5.2007 kl. 17:19
Birgir er nú ekki rétt að koma sér úr sandkassanum, og hætta að tala um hvað aðir segja og rita., og snúa sér að aðalatriðinu. Hagstjórn ríkistjórnarinnar hefur verið arfa slök á sl. kjörtímabili, og nægir þar að nefna Okurvextir, sem hefur leitt af sér spákaupmennski erl. fjárfesta í þessum minnsta gjaldm. heimsins, með allt að 11% mun á stýrivöxtum. Röng gengissk. sem hefur stuðlað af gríðarlegum viðskipahalla, auk ´minnkandi þjóðarframleiðslur. 'Utgjöld ríkisjóðs vaxið um 6% og eru nú 42% af þjóðarfrl. Að lokum stóraukinn verðbólga nú sem nemur 7%.
Birgir taktun nú leppin frá auganu og skoðaðu þetta, og segðu svo okkur svo hversu vísari þú ert.
haraldurhar, 6.5.2007 kl. 22:06
Það er mikið af góðu fólki í Samfylkingunni sem væri gaman að vinna með í ríkisstjórn. Gleymum því ekki.
Kallaðu mig Komment, 7.5.2007 kl. 22:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.