Kaffibandalagið enn óskastjórn Steingríms

Steingrímur J. Sigfússon staðfesti á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að ríkisstjórn kaffibandalagsins væri enn fyrsti valkostur Vinstri grænna þegar kemur að stjórnarmyndunarviðræðum í vor. Sú yfirlýsing er athyglisverð í ljósi þess að undanfarnar vikur og mánuði hafa forystumenn bæði VG og Samfylkingar yfirleitt farið undan í flæmingi þegar þeir hafa verið minntir á stórar yfirlýsingar sínar frá því haust um samstarf þessara tveggja flokka við Frjálslynda að kosningum loknum.  Það hefur helst verið Össur Skarphéðinsson, sem hefur eitthvað myndast við að halda lífinu í kaffibandalagshugmyndinni, en jafnvel honum hefur ekki tekist að tala af mikilli sannfæringu í þeim efnum.

Nú tveimur vikum fyrir kjördag hefur formaður VG hins vegar gert tilraun til að blása nýju lífi í bandalagið með því að árétta að það sé skylda stjórnarandstöðuflokkanna að mynda nýja ríkisstjórn fái þeir til þess þingstyrk. Hann fór fögrum orðum um samstarf þeirra í vetur og taldi málefnalega samstöðu góða, og þrátt fyrir að hann segði vissulega að sér líkaði ekki málflutningur sumra talsmanna Frjálslyndra í innflytjendamálum þá hefðu þeir ekki sem flokkur gert sig ósamstarfshæfa í ríkisstjórn - eða það mátti að minnsta kosti ráða af orðum hans. Þetta var með öðrum orðum allt annar og mildari tónn en heyrst hefur í garð Frjálslynda flokksins um langa hríð.

Nú verður auðvitað forvitnilegt að sjá hvort formaður hins stóra stjórnarandstöðuflokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, er líka tilbúin til að taka undir þetta umburðarlyndi gagnvart Frjálslyndum. Vikum saman hafa frambjóðendur VG og Samfylkingar notað hvert tækifæri til að ráðast á innflytjendastefnu Frjálslyndra og helst ekki viljað snerta á þeim nema með töngum. Nú hefur Steingrímur J. hins vegar greinilega gefið út nýja línu og verður spennandi að sjá hvort aðrir talsmenn þessara flokka fylgja í kjölfarið.

Hitt er svo annað mál að vel kann að fara svo að VG, Samfylking og Frjálslyndir nái ekki þingmeirihluta til að mynda hér vinstri stjórn og má spyrja hvort þeir geti þá hugsað sér að taka Framsóknarflokkinn með sem fjórða hjól undir vagni. Frjálslyndir gætu líka þurrkast út af þingi og þá væri samstarf VG og Samfylkingar við Framsókn eina leiðin til að mynda hér vinstri stjórn. Hvað yrði þá um slagorð VG um "ríkisstjórn með Zero Framsókn"? Steingrímur var ekki spurður sérstaklega út í þessa möguleika, þótt þeir séu eins og staðan er í dag jafnvel líklegri niðurstaða en meirihlutastjórn kaffibandalagsins. Það kom hins vegar skýrt fram hjá Steingrími að hann teldi mikilvægt að hér yrði mynduð vinstri félagshyggjustjórn - í þá átt stefnir hugur hans greinilega - þótt hann sem reyndur stjórnmálamaður útiloki auðvitað ekki hugsanlegt samstarf VG við Sjálfstæðisflokkinn.

Lesendur geta hins vegar dundað sér við að gera sér í hugarlund hvernig þriggja eða fjögurra flokka vinstri stjórn gæti litið út að kosningum loknum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Við tökum þetta bara með meirihluta Sjálfstæðisflokks.....

Vilborg G. Hansen, 27.4.2007 kl. 16:42

2 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Þetta er bara eineltisárátta við Sjálfstæðisflokkinn

Inga Lára Helgadóttir, 30.4.2007 kl. 23:55

3 Smámynd: Kallaðu mig Komment

Geir getur starfað með öllum, sem skiptir máli, ef kosningarnar verða tvísýnar. Ég trúi síðan ekki öðru en að bæði Steingrímur og Ingibjörg myndu láta skynsemina ráða, þegar til kastanna kæmi. Veik fjögurra flokka stjórn er engra hagur. Ég verð annars að hrósa þér fyrir bloggið - einstaklega snyrtilegt! Það er auðvitað ekki við öðru að búast af þér, jafn vönduðum manni.

Kallaðu mig Komment, 30.4.2007 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband