EES mikilvæg forsenda árangurs - en alls ekki sú eina

Að undanförnu hefur sú skoðun ítrekað heyrst úr herbúðum Samfylkingarinnar, að núverandi ríkisstjórn eigi lítinn sem engan þátt í þeirri jákvæðu þróun sem hér hefur átt sér stað í efnahags- atvinnumálum á undanförnum árum. Mikill hagvöxtur, kaupmáttaraukning og full atvinna komi einfaldlega til vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Talað er eins og ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undanfarin tólf ár hafi bara getað hallað sér aftur í sófanum og beðið rólegar eftir því að hinn mikli efnahagslegi ávinningur samningsins, sem Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur komu í gegn, skilaði stórauknum verðmætum inn í þjóðarbúið.

Málflutningur af þessu tagi er afar villandi og hvarflar þó ekki að mér að gera lítið úr gildi aðildar okkar að EES-samningnum. Hann hefur vissulega haft mikil og jákvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf. Aðildin að innri markaðnum, afnám hindrana í viðskiptum við Evrópulönd og margvíslegar breytingar á löggjöf, sem rekja má til samningsins, hafa að sönnu gerbreytt möguleikum atvinnulífsins og átt ríkan þátt í að skapa tækifæri, sem íslenskir athafnamenn hafa nýtt sér, þjóðinni allri til hagsbóta. Um þetta þarf ekki að deila.

Það er hins vegar jafn ljóst, að aðildin að EES er ekki eina skýringin á velgengni okkar. Þar var um að ræða mikilvæga forsendu árangurs, en alls ekki nægjanlega. Nærtækast er að líta til þess að árangur annarra aðildarríkja, bæði gamalla og nýrra, hefur verið misjafn á þessu tímabili. Í sumum löndum hefur hagvöxtur verið góður - minni annars staðar. Í sumum löndum hefur kaupmáttur vaxið mikið - annars staðar ekki. Í sumum aðildarlöndunum er atvinnuástand gott - annars staðar glíma menn við viðvarandi atvinnuleysi. Hér á landi hefur hagvöxtur verið að jafnaði talsvert meiri en í öðrum aðildarríkjum, kaupmáttaraukning miklu meiri en almennt gerist og atvinnuleysi nær óþekkt. Eitthvað hljótum við því að hafa gert sem skilar árangri - umfram það eitt að gerast aðilar að EES. Það samstarf skapar vissulega ótal tækifæri, en það er að miklu leyti undir stjórnarstefnu hvers ríkis komið hvort og hvernig tekst að nýta þau.

Í tilviki okkar Íslendinga hefur árangur náðst vegna aðgerða á borð við skattalækkanir á fyrirtæki og einstaklinga, einkavæðingu opinberra fyrirtækja - ekki síst í fjármálageiranum, aukna hagkvæmni í sjávarútvegi, uppbyggingu í orkufrekum iðnaði og skynsamlega stefna í ríkisfjármálum. Stefna mótuð á þessum forsendum hefur átt ríkan þátt í aukinni verðmætasköpun í hagkerfinu og um leið búið til svigrúm til aukinna umsvifa íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum. Þessar aðgerðir eiga sér ekki rót í EES-samningnum heldur byggja á stefnumótun ríkisstjórna undanfarinna ára. Og um þá stefnumótun hafa átt sér stað harðar pólitískar deilur. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa barist með kjafti og klóm gegn flestum ákvörðunum ríkisstjórnarflokkanna í þessum efnum. Vinstri grænir hafa sem kunnugt alltaf verið á móti og Samfylkingin yfirleitt líka, nema auðvitað í tilviki Kárahnjúkavirkjunar, þar sem nær allir þingmenn flokksins fylgdu ríkisstjórninni að málum.

En hvað sem því líður er að minnsta kosti ljóst, að þegar Samfylkingarmenn tala um að allur árangur undanfarinna ára stafi af EES-samningnum, þá tala þeir annað hvort af vanþekkingu eða gegn betri vitund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Láttu nú ekki svona!  Auðvitað var EES aðildin lykilatriðið, að öllu því sem gerst hefur í íslensku atvinnu- og fjármálalífi. Frelsi atvinnulífsins fékkst í gegnum EES og ESB tilskipanir.  En hversvegna Davíð Oddsson var stundum æfur yfir því hversu langt er gengið er óskiljanlegt öðruvísi en að líta svo á, að hann sem formaður flokksins, hafi verið þessu mótfallinn og litið svo á að íslensk stjórnvöld væru búin að missa tökin á þróuninni!  Honum var einfaldlega nóg boðið!  Svo má nú ekki gleyma bættum réttindum verkalýðsins.  Og þar skýrist áhugi ASÍ á inngöngu í ESB.

Auðun Gíslason, 1.5.2007 kl. 13:07

2 Smámynd: Fannar frá Rifi

ESB er náttúrulega eina von alls verkalýðsins. við getum litið með öfundar augum til landa sem hafa það svo rosalega gott og gera svo rosalega mikið fyrir verkalýðinn að hann þarf ekki að vinna lengur. Þarna á ég náttúrulega við Frakkland og Þýskaland. Það er nú ekki nema tæp 10% atvinnuleysi í þessu stærstu ESB löndunum. eitthvað sem við ættum að taka upp hér á landi, enda myndi það bæta kjör verkamanna svo um munaði.

Fannar frá Rifi, 1.5.2007 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband