Árni Páll og glerhúsið

Árni Páll Árnason gerir ákveðna tilraun til að verja mótsagnirnar í efnahagsstefnu Samfylkingarinnar í Fréttablaðinu í gær. Það er í sjálfu sér virðingarverð viðleitni hjá Árna því aðrir frambjóðendur flokksins hafa ekki verið margorðir um þau mál síðustu vikurnar. Raunar má deila um hvort hægt er að segja að flokkurinn hafi efnahagsstefnu miðað við hvað málflutningurinn hefur verið óljós og mótsagnakenndur. Þess verður auðvitað að geta að Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins kynnti svokallaða greiningu starfshóps Samfylkingarinnar á stöðu efnahagsmála snemma í apríl, en þar var ekki um stefnuplagg að ræða, eins og hann tók sjálfur skýrt fram í fjölmiðlum. Landsfundarályktanir flokksins fólu heldur ekki í sér stefnumótun á þessu sviði. Þar var að vísu minnst á aðhald í ríkisútgjöldum almennum orðum á tveimur eða þremur stöðum - án nánari útskýringa - en flest önnur stefnumál sem þar var að finna gerðu ráð fyrir verulegri útgjaldaaukningu. Frá landsfundi hafa svo aðhaldssjónarmiðin gersamlega horfið úr orðræðu Samfylkingarmanna en verulega verið bætt í útgjaldaloforðin. Sá loforðalisti lengist raunar hraðar en nefið á Gosa.

En Árni Páll ítrekar nú áminninguna um aðhald í ríkisrekstri í öðru orðinu - án þess að útskýra nánar hvað hann á við - og í hinu orðinu talar hann um verulegt átak í velferðarþjónustu. Hann nefnir að Samfylkingin telji ekki ástæðu til að hækka skatta og er það vel, því fram að þessu hafa alls konar skattahækkanahugmyndir verið á sveimi meðal Samfylkingarmanna. Hann bætir því við að flokkur sinn treysti sér til að takast á við uppbyggingu velferðarþjónustunnar innan núverandi tekjuramma, sem er ágætt enda í sjálfu sér ekki í ósamræmi við málflutning okkar sjálfstæðismanna, sem teljum líka að stjórnarstefna undanfarinna ára skapi svigrúm til þess. Við göngum að vísu ekki eins langt í útgjaldaloforðunum og Samfylkingin en teljum engu að síður að þetta svigrúm til að efla velferðarkerfið geti aukist, og það jafnvel þótt um frekari skattalækkanir verði að ræða. Reynslan sýnir nefnilega að hagstæðara skattaumhverfi fyrir atvinnulíf og einstaklinga getur ýtt undir verðmætasköpun og stækkað kökuna, sem til skipta er.

Árni Páll fer hins vegar alveg út af sporinu þegar hann heldur því fram að þessi tekjurammi ríkisins sé þröngur vegna þess sem hann kallar "hagstjórnarmistök íhaldsins". Í þessum orðum felst í fyrsta lagi sá misskilningur að tekjuramminn sé þröngur, því hagvöxturinn og uppgangurinn í atvinnulífinu hefur einmitt fært ríkissjóði stórauknar tekjur - þrátt fyrir stórfellda lækkun skatthlutfalla. Í öðru lagi felst í þeim þversögn, því ef "hagstjórnarmistök íhaldsins" hefðu farið svona illa með efnahagslífið gæti varla verið svigrúm hjá ríkissjóði til að stórefla velferðarkerfið. Það má að vísu kannski hugsa sér að ná fram stórfelldum sparnaði á einhverjum öðrum sviðum ríkisrekstrarins, en Samfylkingin hefur ekki kynnt neinar tillögur í þá veru. Ef marka má landsfundarstefnu flokksins á að setja flest svið ríkisútgjalda í forgang en hvergi á að draga saman. Í ljósi þess verða ummæli Árna Páls um breytta forgangsröðun í ríkisúgjöldum marklaus.

En einkennilegasta athugasemdin í grein Árna Páls er þó trúlega sú, sem lýtur að einhverjum 400 milljarða útgjaldaloforðum okkar sjálfstæðismanna. Þetta er tala sem ég hef hvergi heyrt nema frá Samfylkingarmönnum og ég verð að játa að ég fæ engan botn í útreikningana. Mér hefur komið til hugar að þessi tala sé fengin með því að taka inn í öll áform um framlög til samgöngumála samkvæmt 12 ára samgönguáætlun og hugsanlega líka byggingarkostnað nýs sjúkrahúss, sem auðvitað mun líka dreifast á nokkur ár. Ég hef ekki orðið var við að Samfylkingarmenn hafi áform um að verja minna fé til þessara málaflokka en við sjálfstæðismenn - það er að minnsta kosti hvorki hægt að ráða það af ályktunum þeirra eða ummælum frambjóðenda. En hvað sem því líður þá ættu fréttamenn að spyrja nánar út í þessa 400 milljarða upphæð, næst þegar einhver talsmaður Samfylkingarinnar slær henni fram. Ég hef á tilfinningunni að svörin gætu orðið afar loðin. Sennilega álíka loðin og þegar formaður Samfylkingarinnar var ítrekað spurður um sparnaðartillögur flokksins á morgunvaktinni á Rás 1 fyrir nokkrum dögum. Þá gat Ingibjörg Sólrún aðeins nefnt tvennt; annars vegar fækkun ráðuneyta og hins vegar útgáfu rafrænna reikninga hjá ríkinu. Hvort tveggja eru reyndar ágætar hugmyndir, sem raunar eru þegar komnar í farveg hjá ríkisstjórninni, en munu bara spara smápeninga í samhengi ríkisfjármálanna.

Viðleitni Árna Páls Árnasonar til að skýra efnahagsstefnu Samfylkingarinnar í Fréttablaðinu í gær fór því út um þúfur. Hann og félagar hans verða að gera talsvert betur ef þeim á að takast að skapa flokki sínum einhvern minnsta trúverðugleika í þeim efnum fyrir kosningar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband