Þetta gerist bara með hagvextinum!

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var í Kastljósi í gær og lét þar að mestu ógert að útskýra efnahagsstefnu Samfylkingarinnar. Aðspurð greindi hún reyndar frá því að loforðapakki flokksins myndi kosta um 30 milljarða króna í auknum ríkisútgjöldum þegar hann væri að fullu kominn til framkvæmda, líklega við lok næsta kjörtímabils. Þegar hún var spurð hvernig ætti að fjármagna þetta varð henni í fyrstu nokkuð tregt um svör en bætti síðan við: "Það gerist bara með hagvextinum". Sennilega var þetta  eina svarið sem hún gat gefið, því Samfylkingin hefur fyrir þessar kosningar hvorki gengist við því að vilja auka heildarskattheimtu né lagt fram nokkrar tillögur til sparnaðar hjá ríkinu.

En það liggur sem sagt fyrir að Ingibjörg Sólrún telur að efnahagslegar forsendur séu fyrir auknum hagvexti á næstu árum og það muni skila ríkissjóði stórauknum tekjum. Rétt er að hafa í huga að Samfylkingin hefur ekki lagt fram áform um neinar breytingar á starfsumhverfi atvinnulífsins eða öðrum þeim forsendum, sem hagvöxtur hlýtur að byggja á næstu árin, fyrir auðvitað utan 5 ára stóriðjustopp og sú aðgerð er vissulega ekki til þess fallin að auka hagvöxtinn. Í ljósi þess verður ekki annað ráðið af þessu svari en hún telji ástandið í efnahagsmálum býsna gott og framtíðarhorfur góðar. Það er í sjálfu sér í ágætu samræmi við málflutning okkar sjálfstæðismanna, en hins vegar í hrópandi ósamræmi við málflutning Samfylkingarmanna, sem að undanförnu hafa talað hver í kapp við annan um hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar. Það felst einhver grundvallarmótsögn í þessum málflutningi. Ef ríkisstjórnin hefði klúðrað efnahagsmálunum eins og Samfylkingin heldur stundum fram, þá væru auðvitað ekki forsendur til að reikna með kröftugum hagvexti á næstu árum.

Hitt er svo annað mál að stórlega má efast um að loforðalistar Samfylkingarinnar - sem raunar lengjast dag frá degi - séu bara upp á 30 milljarða króna. Mér sýnist í fljótu bragði að þar sé um verulega hærri fjárhæðir að ræða. Meira um það síðar.


Árni Páll og glerhúsið

Árni Páll Árnason gerir ákveðna tilraun til að verja mótsagnirnar í efnahagsstefnu Samfylkingarinnar í Fréttablaðinu í gær. Það er í sjálfu sér virðingarverð viðleitni hjá Árna því aðrir frambjóðendur flokksins hafa ekki verið margorðir um þau mál síðustu vikurnar. Raunar má deila um hvort hægt er að segja að flokkurinn hafi efnahagsstefnu miðað við hvað málflutningurinn hefur verið óljós og mótsagnakenndur. Þess verður auðvitað að geta að Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins kynnti svokallaða greiningu starfshóps Samfylkingarinnar á stöðu efnahagsmála snemma í apríl, en þar var ekki um stefnuplagg að ræða, eins og hann tók sjálfur skýrt fram í fjölmiðlum. Landsfundarályktanir flokksins fólu heldur ekki í sér stefnumótun á þessu sviði. Þar var að vísu minnst á aðhald í ríkisútgjöldum almennum orðum á tveimur eða þremur stöðum - án nánari útskýringa - en flest önnur stefnumál sem þar var að finna gerðu ráð fyrir verulegri útgjaldaaukningu. Frá landsfundi hafa svo aðhaldssjónarmiðin gersamlega horfið úr orðræðu Samfylkingarmanna en verulega verið bætt í útgjaldaloforðin. Sá loforðalisti lengist raunar hraðar en nefið á Gosa.

En Árni Páll ítrekar nú áminninguna um aðhald í ríkisrekstri í öðru orðinu - án þess að útskýra nánar hvað hann á við - og í hinu orðinu talar hann um verulegt átak í velferðarþjónustu. Hann nefnir að Samfylkingin telji ekki ástæðu til að hækka skatta og er það vel, því fram að þessu hafa alls konar skattahækkanahugmyndir verið á sveimi meðal Samfylkingarmanna. Hann bætir því við að flokkur sinn treysti sér til að takast á við uppbyggingu velferðarþjónustunnar innan núverandi tekjuramma, sem er ágætt enda í sjálfu sér ekki í ósamræmi við málflutning okkar sjálfstæðismanna, sem teljum líka að stjórnarstefna undanfarinna ára skapi svigrúm til þess. Við göngum að vísu ekki eins langt í útgjaldaloforðunum og Samfylkingin en teljum engu að síður að þetta svigrúm til að efla velferðarkerfið geti aukist, og það jafnvel þótt um frekari skattalækkanir verði að ræða. Reynslan sýnir nefnilega að hagstæðara skattaumhverfi fyrir atvinnulíf og einstaklinga getur ýtt undir verðmætasköpun og stækkað kökuna, sem til skipta er.

Árni Páll fer hins vegar alveg út af sporinu þegar hann heldur því fram að þessi tekjurammi ríkisins sé þröngur vegna þess sem hann kallar "hagstjórnarmistök íhaldsins". Í þessum orðum felst í fyrsta lagi sá misskilningur að tekjuramminn sé þröngur, því hagvöxturinn og uppgangurinn í atvinnulífinu hefur einmitt fært ríkissjóði stórauknar tekjur - þrátt fyrir stórfellda lækkun skatthlutfalla. Í öðru lagi felst í þeim þversögn, því ef "hagstjórnarmistök íhaldsins" hefðu farið svona illa með efnahagslífið gæti varla verið svigrúm hjá ríkissjóði til að stórefla velferðarkerfið. Það má að vísu kannski hugsa sér að ná fram stórfelldum sparnaði á einhverjum öðrum sviðum ríkisrekstrarins, en Samfylkingin hefur ekki kynnt neinar tillögur í þá veru. Ef marka má landsfundarstefnu flokksins á að setja flest svið ríkisútgjalda í forgang en hvergi á að draga saman. Í ljósi þess verða ummæli Árna Páls um breytta forgangsröðun í ríkisúgjöldum marklaus.

En einkennilegasta athugasemdin í grein Árna Páls er þó trúlega sú, sem lýtur að einhverjum 400 milljarða útgjaldaloforðum okkar sjálfstæðismanna. Þetta er tala sem ég hef hvergi heyrt nema frá Samfylkingarmönnum og ég verð að játa að ég fæ engan botn í útreikningana. Mér hefur komið til hugar að þessi tala sé fengin með því að taka inn í öll áform um framlög til samgöngumála samkvæmt 12 ára samgönguáætlun og hugsanlega líka byggingarkostnað nýs sjúkrahúss, sem auðvitað mun líka dreifast á nokkur ár. Ég hef ekki orðið var við að Samfylkingarmenn hafi áform um að verja minna fé til þessara málaflokka en við sjálfstæðismenn - það er að minnsta kosti hvorki hægt að ráða það af ályktunum þeirra eða ummælum frambjóðenda. En hvað sem því líður þá ættu fréttamenn að spyrja nánar út í þessa 400 milljarða upphæð, næst þegar einhver talsmaður Samfylkingarinnar slær henni fram. Ég hef á tilfinningunni að svörin gætu orðið afar loðin. Sennilega álíka loðin og þegar formaður Samfylkingarinnar var ítrekað spurður um sparnaðartillögur flokksins á morgunvaktinni á Rás 1 fyrir nokkrum dögum. Þá gat Ingibjörg Sólrún aðeins nefnt tvennt; annars vegar fækkun ráðuneyta og hins vegar útgáfu rafrænna reikninga hjá ríkinu. Hvort tveggja eru reyndar ágætar hugmyndir, sem raunar eru þegar komnar í farveg hjá ríkisstjórninni, en munu bara spara smápeninga í samhengi ríkisfjármálanna.

Viðleitni Árna Páls Árnasonar til að skýra efnahagsstefnu Samfylkingarinnar í Fréttablaðinu í gær fór því út um þúfur. Hann og félagar hans verða að gera talsvert betur ef þeim á að takast að skapa flokki sínum einhvern minnsta trúverðugleika í þeim efnum fyrir kosningar.

 


EES mikilvæg forsenda árangurs - en alls ekki sú eina

Að undanförnu hefur sú skoðun ítrekað heyrst úr herbúðum Samfylkingarinnar, að núverandi ríkisstjórn eigi lítinn sem engan þátt í þeirri jákvæðu þróun sem hér hefur átt sér stað í efnahags- atvinnumálum á undanförnum árum. Mikill hagvöxtur, kaupmáttaraukning og full atvinna komi einfaldlega til vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Talað er eins og ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undanfarin tólf ár hafi bara getað hallað sér aftur í sófanum og beðið rólegar eftir því að hinn mikli efnahagslegi ávinningur samningsins, sem Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur komu í gegn, skilaði stórauknum verðmætum inn í þjóðarbúið.

Málflutningur af þessu tagi er afar villandi og hvarflar þó ekki að mér að gera lítið úr gildi aðildar okkar að EES-samningnum. Hann hefur vissulega haft mikil og jákvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf. Aðildin að innri markaðnum, afnám hindrana í viðskiptum við Evrópulönd og margvíslegar breytingar á löggjöf, sem rekja má til samningsins, hafa að sönnu gerbreytt möguleikum atvinnulífsins og átt ríkan þátt í að skapa tækifæri, sem íslenskir athafnamenn hafa nýtt sér, þjóðinni allri til hagsbóta. Um þetta þarf ekki að deila.

Það er hins vegar jafn ljóst, að aðildin að EES er ekki eina skýringin á velgengni okkar. Þar var um að ræða mikilvæga forsendu árangurs, en alls ekki nægjanlega. Nærtækast er að líta til þess að árangur annarra aðildarríkja, bæði gamalla og nýrra, hefur verið misjafn á þessu tímabili. Í sumum löndum hefur hagvöxtur verið góður - minni annars staðar. Í sumum löndum hefur kaupmáttur vaxið mikið - annars staðar ekki. Í sumum aðildarlöndunum er atvinnuástand gott - annars staðar glíma menn við viðvarandi atvinnuleysi. Hér á landi hefur hagvöxtur verið að jafnaði talsvert meiri en í öðrum aðildarríkjum, kaupmáttaraukning miklu meiri en almennt gerist og atvinnuleysi nær óþekkt. Eitthvað hljótum við því að hafa gert sem skilar árangri - umfram það eitt að gerast aðilar að EES. Það samstarf skapar vissulega ótal tækifæri, en það er að miklu leyti undir stjórnarstefnu hvers ríkis komið hvort og hvernig tekst að nýta þau.

Í tilviki okkar Íslendinga hefur árangur náðst vegna aðgerða á borð við skattalækkanir á fyrirtæki og einstaklinga, einkavæðingu opinberra fyrirtækja - ekki síst í fjármálageiranum, aukna hagkvæmni í sjávarútvegi, uppbyggingu í orkufrekum iðnaði og skynsamlega stefna í ríkisfjármálum. Stefna mótuð á þessum forsendum hefur átt ríkan þátt í aukinni verðmætasköpun í hagkerfinu og um leið búið til svigrúm til aukinna umsvifa íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum. Þessar aðgerðir eiga sér ekki rót í EES-samningnum heldur byggja á stefnumótun ríkisstjórna undanfarinna ára. Og um þá stefnumótun hafa átt sér stað harðar pólitískar deilur. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa barist með kjafti og klóm gegn flestum ákvörðunum ríkisstjórnarflokkanna í þessum efnum. Vinstri grænir hafa sem kunnugt alltaf verið á móti og Samfylkingin yfirleitt líka, nema auðvitað í tilviki Kárahnjúkavirkjunar, þar sem nær allir þingmenn flokksins fylgdu ríkisstjórninni að málum.

En hvað sem því líður er að minnsta kosti ljóst, að þegar Samfylkingarmenn tala um að allur árangur undanfarinna ára stafi af EES-samningnum, þá tala þeir annað hvort af vanþekkingu eða gegn betri vitund.


Kaffibandalagið enn óskastjórn Steingríms

Steingrímur J. Sigfússon staðfesti á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að ríkisstjórn kaffibandalagsins væri enn fyrsti valkostur Vinstri grænna þegar kemur að stjórnarmyndunarviðræðum í vor. Sú yfirlýsing er athyglisverð í ljósi þess að undanfarnar vikur og mánuði hafa forystumenn bæði VG og Samfylkingar yfirleitt farið undan í flæmingi þegar þeir hafa verið minntir á stórar yfirlýsingar sínar frá því haust um samstarf þessara tveggja flokka við Frjálslynda að kosningum loknum.  Það hefur helst verið Össur Skarphéðinsson, sem hefur eitthvað myndast við að halda lífinu í kaffibandalagshugmyndinni, en jafnvel honum hefur ekki tekist að tala af mikilli sannfæringu í þeim efnum.

Nú tveimur vikum fyrir kjördag hefur formaður VG hins vegar gert tilraun til að blása nýju lífi í bandalagið með því að árétta að það sé skylda stjórnarandstöðuflokkanna að mynda nýja ríkisstjórn fái þeir til þess þingstyrk. Hann fór fögrum orðum um samstarf þeirra í vetur og taldi málefnalega samstöðu góða, og þrátt fyrir að hann segði vissulega að sér líkaði ekki málflutningur sumra talsmanna Frjálslyndra í innflytjendamálum þá hefðu þeir ekki sem flokkur gert sig ósamstarfshæfa í ríkisstjórn - eða það mátti að minnsta kosti ráða af orðum hans. Þetta var með öðrum orðum allt annar og mildari tónn en heyrst hefur í garð Frjálslynda flokksins um langa hríð.

Nú verður auðvitað forvitnilegt að sjá hvort formaður hins stóra stjórnarandstöðuflokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, er líka tilbúin til að taka undir þetta umburðarlyndi gagnvart Frjálslyndum. Vikum saman hafa frambjóðendur VG og Samfylkingar notað hvert tækifæri til að ráðast á innflytjendastefnu Frjálslyndra og helst ekki viljað snerta á þeim nema með töngum. Nú hefur Steingrímur J. hins vegar greinilega gefið út nýja línu og verður spennandi að sjá hvort aðrir talsmenn þessara flokka fylgja í kjölfarið.

Hitt er svo annað mál að vel kann að fara svo að VG, Samfylking og Frjálslyndir nái ekki þingmeirihluta til að mynda hér vinstri stjórn og má spyrja hvort þeir geti þá hugsað sér að taka Framsóknarflokkinn með sem fjórða hjól undir vagni. Frjálslyndir gætu líka þurrkast út af þingi og þá væri samstarf VG og Samfylkingar við Framsókn eina leiðin til að mynda hér vinstri stjórn. Hvað yrði þá um slagorð VG um "ríkisstjórn með Zero Framsókn"? Steingrímur var ekki spurður sérstaklega út í þessa möguleika, þótt þeir séu eins og staðan er í dag jafnvel líklegri niðurstaða en meirihlutastjórn kaffibandalagsins. Það kom hins vegar skýrt fram hjá Steingrími að hann teldi mikilvægt að hér yrði mynduð vinstri félagshyggjustjórn - í þá átt stefnir hugur hans greinilega - þótt hann sem reyndur stjórnmálamaður útiloki auðvitað ekki hugsanlegt samstarf VG við Sjálfstæðisflokkinn.

Lesendur geta hins vegar dundað sér við að gera sér í hugarlund hvernig þriggja eða fjögurra flokka vinstri stjórn gæti litið út að kosningum loknum.


Málar Steingrímur J. sig út í horn?

Heiftarleg viðbrögð Steingríms J. Sigfússonar við samningum íslenskra stjórnvalda við Norðmenn og Dani um samstarf á sviði varnarmála þurfa ekki að koma á óvart. Þau eru í ágætu samræmi við fyrri málflutning og áherslur Vinstri grænna, sem ganga út á að Íslendingar - einir þjóða - þurfi ekki að gera neinar ráðstafanir vegna varna landsins og eigi alls ekki að eiga samstarf við aðrar þjóðir á því sviði.

Þessi skýra afstaða Steingríms undirstrikar hins vegar sérstöðu - ég vil leyfa mér að segja einangrun - Vinstri grænna í þessum málaflokki. Flokkurinn heldur sig þarna yst á vinstri kantinum í íslenskum stjórnmálum og hefur raunar einstrengingslegri afstöðu til þessara mála heldur en jafnvel systurflokkurinn í Noregi, Sósíalíski vinstriflokkurinn, en hann á sem kunnugt er aðild að þeirri samsteypustjórn norsku vinstri flokkanna, sem svo skemmtilega vill til að er viðsemjandi íslenskra stjórnvalda.

Á undanförnum mánuðum hafa Vinstri grænir getað fagnað verulegri fylgisaukningu samkvæmt skoðanakönnunum. Það hefur raunar gerst áður og minnti leiðarahöfundur Morgunblaðsins á það snemma árs að í aðdraganda kosninga hefði Steingrímur J. jafnan náð að tala fylgið niður og fæla frá sér hluta kjósenda með stóryrðum og lýðskrumi. Síðustu mánuði hafa Steingrímur og félagar hans hins vegar lagt mikið á sig til að sýnast mun hófsamari og ábyrgari en áður. Nú er hins vegar spurning hvort gríman fellur á lokaspretti kosningabaráttunnar með þeim afleiðingum sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins spáði í lok janúar. Stóryrðin í dag út af samkomulaginu við Norðmenn og Dani kunna að veita vísbendingu um það.


Villandi umræður um misskiptingu og fátækt

Þegar við stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar vekjum athygli á hinni miklu kaupmáttaraukningu undanfarinna ára eru svör stjórnarandstöðunnar oft á þá leið að svona meðaltalsupplýsingar gefi ekki rétta mynd af stöðunni. Líta þurfi til þess að fátækt og misskipting sé vaxandi vandamál í þjóðfélaginu. Ísland sé að breytast úr því að vera það ríki Evrópu sem búi við hvað mestan jöfnuð í að verða eitthvert ójafnasta samfélag álfunnar. Þetta eru alvarlegar fullyrðingar, en sem betur fer ekki í samræmi við raunveruleikann.

Sennilega hefur Össur Skarphéðinsson gengið lengst í þessum umræðum upp á síðkastið, en hann hefur ítrekað fullyrt að Ísland sé að verða stéttskiptasta land Evrópu. Með því hlýtur hann að vísa til stéttaskiptingar í fjárhagslegum skilningi, því flestar ættu að geta verið sammála um að hér á landi eru ekki fyrir hendi sömu forsendur rótgróinnar stéttaskiptingar og í ýmsum Evrópuríkjum, t.d. á grundvelli ættar og uppruna.

Skemmst er frá því að segja, að hvorki Össuri né öðrum talsmönnum þessara sjónarmiða hefur gengið vel að færa rök fyrir fullyrðingum af þessu tagi. Þvert á móti hafa á síðustu mánuðum ítrekað komið fram upplýsingar um hið gagnstæða.

Í því sambandi er sérstaklega ástæða til að rifja upp að í byrjun febrúar greindi Hagstofan frá niðurstöðum rannsóknar á lágtekjumörkum og tekjudreifingu í þjóðfélaginu og samanburði við önnur Evrópulönd í því sambandi. Lágtekjumörkin gefa til kynna hversu stór hluti heimila í landinu eigi á hættu að lenda undir fátæktarmörkum og notaði Hagstofan samræmdar aðferðir Evrópusambandsins á því sviði. Niðurstaðan var á þá leið að aðeins í Svíþjóð væru hlutfallslega færri heimili undir lágtekjumörkum en hér á landi. Fátæktarvandinn mældist hins vegar meiri í öllum öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins.

Rannsóknir Hagstofunnar á tekjudreifingu leiddu í ljós svipaðar niðurstöður. Tekjudreifing reyndist jafnari hér á landi en í flestum samanburðarlöndunum; aðeins Svíþjóð, Slóvenía og Danmörk komu jafn vel eða betur út en Ísland að því leyti.

Þessar niðurstöður leiða með öðrum orðum í ljós að fátækt og misskipting er minna vandamál hér á landi en í flestum Evrópulöndum. Fullyrðingar stjórnarandstæðinga um hið gagnstæða standast því ekki.


Er kaupmáttaraukningin náttúrulögmál?

Í kosningabaráttu þarf stundum að eyða talsverðri orku í að koma einföldum upplýsingum á framfæri. Þannig hafa nýjar upplýsingar um þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna undanfarinna ára skilað sér sérstaklega seint til forystumanna í stjórnarandstöðunni. Þessi þróun hefur raunar verið enn jákvæðari en jafnvel við hörðustu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar þorðum að vona; 56% kaupmáttaraukning frá 1994 til 2005 samkvæmt vandaðri rannsókn Hagstofunnar og útlit fyrir að aukningin verði alls 75% frá 1994 til 2007 miðað við upplýsingar úr þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytisins.

En nú virðast talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna hættir að draga þessar upplýsingar í efa eins og kom fram í máli þeirra í kjördæmaþætti Stöðvar 2 frá Reykjavíkurkjördæmi suður fyrr í kvöld. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti ástandinu í landinu undanfarin ár meira að segja sem góðæri. Það eru vissulega þó nokkur tíðindi að heyra það orð frá henni í þessu samhengi þótt hagtölur hafi auðvitað sýnt þessa stöðu í langan tíma.

Á hinn bóginn mátti ráða það af tali Ingibjargar Sólrúnar, Kolbrúnar Halldórsdóttur og annarra fulltrúa stjórnarandstöðunnar að góðærið og kaupmáttaraukningin hefði einhvern veginn komið til af sjálfu sér. Okkur Íslendingum hefði bara vegnað vel - kannski fyrir heppni - og ríkisstjórnin ætti þar engan hlut að máli. Jón Magnússon, fulltrúi Frjálslynda flokksins, sagði reyndar að helst mætti hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa ekki þvælst fyrir þessari þróun og verður að telja það allnokkra viðurkenningu úr hans munni, enda sýnir reynslan að afskipti ríkisstjórna eru einmitt oft til þess fallin að tefja og trufla verðmætasköpun og lífskjarabætur. Reynslan frá tíð síðustu vinstri stjórnar er einmitt gott dæmi um það.

En auk þess að láta ógert að þvælast fyrir þróuninni geta ríkisstjórnir gert ýmislegt gagnlegt til að örva atvinnulífið og skapa skilyrði fyrir hagvexti og kaupmáttaraukningu. Nokkrar stefnumarkandi ákvarðanir ríkisstjórna undanfarinna 16 ára hafa einmitt verið til þess fallnar að skapa slík skilyrði. EES-samningurinn var gríðarlega mikilvæg forsenda þessarar þróunar og sama má segja um skattalækkanir á atvinnulífið, aukið frelsi í viðskiptum og aðrar umbætur á starfsskilyrðum fyrirtækjanna í landinu. Einkavæðing opinberra fyrirtækja - ekki síst bankanna - leysti úr læðingi mikla krafta í atvinnulífinu og skynsamlegt stjórnkerfi fiskveiða og uppbygging á sviði orkufreks iðnaðar hefur líka orðið til þess að efla efnahagslífið. Allir þessir þættir í stjórnarstefnu undanfarinna ára hafa verið umdeildir og orðið stjórnarandstöðunni á hverjum tíma tilefni til harðra árása á stjórnarflokkana. Reynslan hefur hins vegar sýnt að úrtölumennirnir höfðu rangt fyrir sér og árangur stefnunnar hefur ótvírætt komið í ljós, meðal annars með hinni miklu kaupmáttaraukningu.

Samanburður við önnur lönd sýnir líka að það er alls ekki sjálfgefið að kaupmáttur aukist í þeim mæli sem orðið hefur hér á landi. Í áðurnefndri þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytisins kemur þannig fram að kaupmáttaraukningin hér á landi á árunum 1994 til 2005 átti sér aðeins hliðstæðu í Noregi. Þar var kaupmáttaraukningin reyndar örlítið meiri yfir þetta tímabil en hér á landi en í öðrum helstu samanburðarlöndum var útkoman mun lakari. Við náðum eins og áður segir 56% aukningu en næst á eftir okkur koma Bandaríkin og Finnland með rétt um 40%, Bretland með tæp 35%, Kanada með rúmlega 30% og Frakkland aðeins undir 30%. Í Svíþjóð og Danmörku var aukningin á viðmiðunartímabilinu í kringum 20%. Þróunin hér hefur því verið miklu jákvæðari en í nágrannalöndunum, að Noregi einum undanskildum. Það er því alrangt, sem stundum er haldið fram, að árangur okkar sé svo sem ekkert sérstakur, lífskjörin hafi batnað jafn mikið í löndunum í kringum okkur. Slíkar fullyrðingar standast einfaldlega ekki skoðun.


Melónuflokkurinn - og sá appelsínuguli

Ég tek eftir því að rauði liturinn er miklu meira áberandi í auglýsingum og kynningarefni Samfylkingarinnar nú en í fyrri kosningum. Ég man ekki betur en að appelsínugulur hafi lengi verið einkennislitur flokksins og rauði liturinn hafi verið látinn hverfa með sama hætti og Internationalinn hljóðnaði á flokksþingunum - svona til að undirstrika með táknrænum hætti skilin við fortíð stórs hóps Samfylkingarmanna í Alþýðubandalaginu. Hugsanlega er skýringin á hinum sterkrauða svip Samfylkingarinnar nú sú að flokkurinn sé að reyna að senda dulin skilaboð til þess stóra hóps kjósenda á vinstri vængnum sem virðist vera á leiðinni yfir til Vinstri-grænna.

Rauði liturinn sést hins vegar varla í kynningarefni VG. Það er áreiðanlega ekki heldur tilviljun. Spunameistarar flokksins gera sér væntanlega grein fyrir því að grænu áherslurnar höfða til mun fleiri kjósenda en gamla vinstri stefnan. Vandi VG í þessu sambandi er hins vegar sá að í aðdraganda kosninga koma miklu fleiri mál til umræðu en umhverfismálin. Og alltaf þegar rætt er um utanríkismál, atvinnumál, efnahagsmál, skattamál eða ríkisafskipti almennt koma hinar gömlu, rauðu áherslur í ljós.

Það má nefnilega segja um VG eins og sagt var um græningja í Þýskalandi fyrir 20-30 árum: Þeir eru eins og melónan - grænir hið ytra en rauðir hið innra.


Kaupmáttaraukningin 75% frá 1994

Hagstofan greindi fyrir skömmu frá því að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði aukist í landinu um 56% á tímabilinu 1994 til 2005. Fjármálaráðuneytið birti í gær nýja þjóðhagsspá þar sem koma fram upplýsingar sem sýna að þessi kröftuga kaupmáttaraukning hafi haldið áfram. Miðað við fyrirliggjandi forsendur var aukningin frá 2005 til 2006 um 6% og gert er ráð fyrir sambærilegri aukningu milli áranna 2006 og 2007. Niðurstaðan er því sú að kaupmátturinn hafi á þessu ári aukist um 75% frá árinu 1994.

Mikilvægt er að hafa í huga að þegar þessar niðurstöður um kaupmátt ráðstöfunartekna eru reiknaðar út er að sjálfsögðu tekið tillit til verðbólgu og fólksfjölgunar. Í útreikningunum er miðað við þróun tekna en um leið horft til útgjalda á borð við skatta, iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóða og vaxtagjalda, meðal annars vegna íbúðakaupa.

Þetta síðastnefnda er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga í ljósi þess áróðurs, sem rekinn hefur verið af hálfu stjórnarandstöðunnar að undanförnu. Sá málflutningur hefur í sem fæstum orðum gengið út á að ekkert sé að marka upplýsingar ríkisstjórnarinnar um bætt lífskjör í landinu því verðbólga og vaxtahækkanir hafi á síðustu misserum étið upp kaupmáttaraukninguna. Niðurstöður Hagstofunnar og nýjar upplýsingar fjármálaráðuneytisins, sem byggðar eru á sömu forsendum, afsanna þetta tal með óyggjandi hætti. Kaupmátturinn hefur aukist gríðarlega - og það þótt búið sé að taka tillit til verðbólgu og vaxta.

Það er svo rétt að taka fram að lokum að kaupmáttaraukningin hérlendis hefur verið miklu meiri en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Norðmenn hafa að vísu notið sambærilegra kjarabóta á undanförnum árum en annars staðar hefur árangurinn verið miklu minni.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband